Skip to content

Dreifðar byggðir

Hugtökin dreifbýli (e. rural) og þéttbýli (e. urban) er erfitt að skilgreina á algildan hátt. Það sem þykir þéttbýlt í einu samhengi þarf ekki að þykja það í öðru, og því eru þessi hugtök oft nýtt sem lýsing á ákveðnum andstæðum margmennis, innviða og uppbyggingar annarsvegar, á móti afskekktum byggðum, fámennum og lítt upp byggðum hins vegar.

Á Íslandi tíðkast að skipta landinu upp í höfuðborgarsvæðið annarsvegar, þar sem um 60% landsmanna búa, og svo landsbyggðina hinsvegar. Sumir vilja tala um landsbyggðirnar í fleirtölu, enda mikill munur á aðstæðum byggða utan höfuðborgarsvæðisins. Annars vegar mætti taka Akureyri, sem telur um 20 þús manns. Þar er háskóli og ýmsir innviðir og þjónusta fyrir stærra svæði. Hins vegar þorp líkt og Raufarhöfn, sem telur um 200 manns og er staðsett langt frá flestri þjónustu og innviðum. Augljóslega eru aðstæður mjög ólíkar á milli slíkra byggðarlaga og varasamt að líta svo á að þau falli sjálfkrafa undir sama hatt.

Þegar orð eins og landsbyggði(ir), strjálbýli, dreifðar byggðir og afskektar eru notuð í þessari heimild má í íslensku samhengi ætla að verið sé að vísa í þann hluta landsins sem er fyrir utan höfuðborgarsvæðið, en þéttbýli, borgir og stærri staðir vísa yfirleitt í Reykjavík og nágrenni. Hér þarf alltaf að hafa þann fyrirvara á að samhengi hvers staðar er ólíkt og alhæfingar þarf að yfirfæra á ólíkan hátt um hvert byggðarlag.

Staðsetning nýsköpunar

Að aðgreina starfsemi nýsköpunnar í dreifðbýla eða þéttbýla flækist enn við það, að nýsköpun á sér ekki endilega skýra staðsetningu. Stofnun eða fyrirtæki sem stundar nýsköpun kann að hafa skráð póstnúmer á einum hluta landsins, en starfsmenn og starfsemi um allan heim. Jafnframt gætir áhrifa nýsköpunar sem stunduð er yfirleitt þvert á landshluta og jafnvel landamæri. Þetta verður enn flóknara með aukinni samskiptatækni og störfum án staðsetningar.

Hér væri hægt að nota nýsköpunarfyrirtækið Kerecis sem dæmi, sem hefur þróað aðferð til að nýta fiskroð til að græða sár. Félagið Kerecis hf er skráð í póstnúmerinu 400 Ísafirði, og þar fer jafnframt framleiðsla vörunnar fram. Rannsóknir og þróun fara fram í Reykjavík samkvæmt vefsíðu félagsins[1]. Sá hluti rannsóknar og þróunar Kerecis sem fer fram í Reykjavík hlýtur að teljast hluti af þeirri nýsköpun sem á sér stað á höfuðborgarsvæðinu, burt sér frá skráningu félagsins í fyrirtækjaskrá.

Auk starfsemi Kerecis á Íslandi er það með skrifstofur í Þýskalandi og Bandaríkjunum, þar sem nær helmingur allra 400 starfsmanna fyrirtækisins vinnur við sölustarf. Þegar litið er til stjórnar og stjórnenda Kerecis eru ekki augljós tengsl við Ísafjörð hjá flestum þeirra. Árið 2023 var félagið Kerecis keypt af fyrirtækinu Coloplast, sem telst danskt. Loks vinnur Kerecis á alþjóðlegum markaði, og beint áhrif nýsköpunar þess hefur áhrif á framfarir og tækni um allan heim.

Tengsl Kerecis við Ísafjörð eru óumdeild og óþarfi að gera lítið úr þeim. Það sem dæmið er nýtt til að sýna er að flókið getur verið að mæli landfræðilega staðsetningu nýsköpunar í alþjóðavæddum heimi. Að sama skapi fer fram hátækniframleiðsla á fiskvinnsluvélum á Ísafirði sem byggir á langri hefð og tækniþekkingu á svæðinu undir merkjum Skaginn 3X, sem skráð er á Akranesi en er í eigu þýska fyrirtækisins Baader. Sú hátækni sem þar á sér stað telst að sjálfsögðu á einhverju leyti sem hluti af ísfirskri nýsköpun. Þessi dæmi eru áminning um að nota ekki of einfaldar hugmyndir um hvað felst í að laða nýsköpun til svæðis. Nýsköpun sem fer fram á ákveðnum stað felur ekki altlaf í sér að fyrirtæki sé með lögheimili skráð þar.

Ef við göngum ómeðvitað út frá að efling nýsköpunar feli eingöngu í sér að fyrirtæki sé stofnað á ákveðnum stað gætum við farið á mis við viss tækifæri. Að efla nýsköpun í tilteknu byggðarlagi gæti allt eins falið í sér að laða starfsfólk eða starfsemi sem stundar nýsköpun til staðarins, burt séð frá því hvar kennitalan sem starfsemin fer fram undir er skráð, eða hvar fyrirtækið staðsetur sig annars.

Að laða starfsfólk eða verktaka sem vinna skapandi störf fyrir fyrirtæki eða stofnun með höfuðstöðvar á stærri stað, gæti verið mun raunhæfara markmið fyrir smærri og afskektari staði til að efla vistkerfi nýsköpunar hjá sér, frekar en að búast við að fyrirtæki séu stofnuð þar. Nýsköpun útheimtir oft mjög sérhæfðan starfskraft, og þarf í sumum tilfellum að fara fram á ákveðinni stærðargráðu sem ekki er auðvelt að koma á fót í dreifbýli.

Það er hæpið að fyrirtæki eins og CCP eða Marel myndi staðsetja höfuðstöðvar sínar á Borgarfirði eystri. Það væri þó alls ekki útilokað að nokkrir starfsmenn þessa fyrirtækja eða undirverktaka ættu heima þar.

Staða nýsköpunar á landsbyggðunum

Með þeim fyrirvörum sem tilgreindir voru að ofan er þó áhugavert að reyna að átta sig á mun á milli dreifðra byggða og höfuðborgarsvæðisins þegar kemur að nýsköpun. Árið 2019 svaraði þáverandi ráðherra nýsköpunar þingfyrirspurn[2] um skiptingu stuðnings hins opinbera eftir landshlutum, sem byggði á úttekt Vísinda- og tækniráðs[3]. Úttektin sýndi mikinn mun á því hvert stuðningur hins opinbera til nýsköpunar leitaði, milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðana.

Tækniþróunarsjóður er einn helsti opinberi sjóður sem styður við nýsköpun á Íslandi. Samkvæmt úttektinni fóru um 89% af öllum styrkjum sjóðsins til aðila á höfuðborgarsvæðinu af þeim um 13.5 milljörðum sem úthlutað hafði verið áratuginn á undan.

Önnur mikilvæg leið hins opinbera til að styðja við nýsköpun er í gegnum svokallaða “skattaafslætti” vegna rannsóknar og þróunar. Í gegnum þá geta aðilar sem stunda rannsóknir og þróun fengið hluta af því fjármagni til baka frá ríkinu sem þeir verja til rannsóknar og þróunar vegna nýsköpunar. Ólíkt samkeppnissjóðum líkt og Tækniþróunarsjóði eru þessar endurgreiðslur réttindi sem greiðist að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hlutfall þessara greiðslna sem runnu til höfuðborgarsvæðisins var svipað og Tækniþróunarsjóðs, eða um 91% af þeim rúmum 16 milljörðum sem greiddir voru á árunum 2011 - 2019.

Þessar tvær uppsprettur opinbers fjármagns eru líklega mikilvægastar þegar kemur að nýsköpun á landsvísu, en önnur fjármögnun á landsvísu sem tengist t.d. rannsóknum eða listum og skapandi greinum fylgir svipuðu mynstri þegar kemur að skiptingu milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggða.

Samkvæmt úttektinni er staðfest að “höfuðborgarsvæðið nýtur mikils stuðnings til rannsókna og nýsköpunar”. Hins vegar er bent á, að lítill munur sé á árangurshlutfalli umsókna eftir landshutum[4]. Þ.e.a.s. að umsóknir frá landsbyggðunum séu jafnframt hlutfallslega færri.

Hver er ástæða þess að bæði umsóknir og úthlutanir úr helstu opinberu hítum til nýsköpunar séu hlutfallslega færri utan af landi? Það eru tæpast forsendur til að svara því með mikilli nákvæmni, en þó getur verið áhugavert að nálgast það með nokkrum kenningum og máta þær við það sem vitað er.

Beinast liggur við að spyrja hvort nýsköpunarstarfsemi sé einfaldlega meiri á höfuðborgarsvæðinu, sem þá getur annaðhvort verið orsök eða afleiðing af misskiptingu styrkjanna? Er fólk úti á landi minna nýskapandi? Þar sem nýsköpun hefur jákvæða gildishlaðna merkingu virðist þessi spurning oft vekja upp varnarviðbrögð, líkt og verið sé að gera lítið úr samfélögum úti á landi.

Á nýsköpun heima í Reykjavík?

Margt er ólíkt milli samfélagsgerðar dreifbýlis og þéttbýlis sem snertir umhverfi nýsköpunar. Atvinnuhættir í dreifðum byggðum hafa til langs tíma frekar tengst beinni nýtingu á náttúruauðlindum, s.s. landbúnaði og sjávarútvegi. Hinn svokallaði “þekkingariðnaður” virðist fremur spretta upp í borgum, enda eru flestir háskólar og rannsóknarstofnanir þar. Þá býður fjölmennið oft upp á meiri sérhæfingu og fjölbreyttari hæfni og þekking getur komið saman á einum stað en hægt væri á smærri stöðum. Jafnframt eru fjárfestar og fjármagn yfirleitt með sínar bækistöðvar á stærri stöðum, sem og flestar stofnanir ríkisins.

Það væri því ekki fjarstæðukennt að velta því upp að hvort nýsköpun eigi sér mögulega sitt eðililega heimili á stærri stöðum? En þó ekkert sé að því að spyrja þessarar spurningar, ættum við ekki að láta staðar numið þar.

Önnur nálgun á því að svara þessari spurningu væri, að velta því fyrir sér hvort nýsköpun sé ekki endilega minni í dreifðum byggðum, heldur annars eðlis. Þær skilgreiningar og áherslur sem við notumst við þegar við hönnum ferla sem styðja við nýsköpun geta haft mikil áhrif á það hvers konar nýsköpun er styrkt. Sá skilningur sem lagður er í hugtök líkt og “tækni”, “nýnæmi” og “verðmæti” getur hér haft miklar afleiðingar á hvaða niðurstöður við fáum.

Loks er mikill munur á því að spyrja hvort að nýsköpun eigi auðveldar uppdráttar á einhverjum stað, og hvort hennar sé fremur þörf þar. Á stöðum þar sem nýsköpun hefur ekki verið stunduð af sama krafti og annars staðar gæti einmitt þörfin fyrir hana verið hve mest, og að sama skapi flest vannýtt tækifæri.

Er nýsköpun úti á landi öðruvísi?

Hér verður reynt að velta upp spurningum sem gæti skipt máli við stefnumótun nýsköpunar, og hvernig hún gæti haft ólíkt áhrif á frumkvöðla á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Hér vísum við í ólíkar túlkunar á hugtökunum nýstárlegt og verðmætaskapandi, líkt og rætt var í kaflanum Hvað er nýsköpun?.

Nýtt hér eða í heiminum?

Í dreifðum byggðum er gjarnan minna framboð af þjónustu og innviðum en í borgum. Því er því stundum haldið fram, að frumkvöðlar í landsbyggðum séu síður í því að finna upp vörur og þjónustu sem hvergi finnst annars staðar, heldur fremur að leita leiða til að bjóða upp á þjónustu sem þegar er til á stærri stöðum, og finna nýjar og skapandi leiðir til að láta það ganga upp í sinni heimabyggð.

Þannig felst varla nýsköpun í því að bjóða upp á háskólanám út af fyrir sig, enda hefur slíkt verið stundað um allan heim um aldir. Það kann þó að útheimta töluverða nýsköpun að bjóða upp á háskólanám í fámennum og afskekktum landshluta, líkt og Háskólasetur Vestfjarða gerir. Þar eru aðstæður allt aðrar, og það myndi aldrei ganga upp að hafa náminu með sama hætti og t.d. Háskóli Íslands gerir.

Líkt og minnst var á í kaflanum Hvað er nýsköpun?, felst nýnæmið samkvæmt í viðhorfi viðkomandi hagaðila. Þ.e.a.s. - háskólanám er ekki nýtt í heiminum en það var nýtt á Vestfjörðum. Að koma á fót háskólanámi á Vestfjörðum getur því vel talist nýsköpun fyrir þeim sem það stunda, og þá sem það snertir.

Nær öll verkfæri sem beitt er til að styðja við nýsköpun frá hendi hins opinbera gera einhverskonar kröfu um nýnæmi. Oft er mikill þrýstingur á að opinberir aðilar styrki ekki rekstur sem þegar er til, enda geti það skekkt samkeppnisstöðu. Það ber þó að hafa í huga, að hvernig við skilgreinum nýnæmi og hvernig mat á nýnæmi er útfært, gæti haft afleiðingar um það hvert stuðningurinn leitar. Mjög þröng skilgreining á nýnæmi, t.d. sú sem ekki tekur tillit til þess hvernig nýnæmi getur verið bundið við staðsetningu, gæti leitt til þess að stuðningur við nýsköpun leiti síður út á land þar sem verið er að finna upp sama hjól, en í ólíkum aðstæðum.

Svæðisbundnar þverstæður nýsköpunar

Árið 2002 bentu fræðimenn á ákveðnar þverstæður í því hvernig stuðningur til nýsköpunar leitar milli svæða í grein þar sem það var kallað á ensku The Regional Innovation Paradox[5],. Þversögnin felst í því, að þau svæði sem eru eftir á í nýsköpun eiga erfiðara með að fjárfesta í nýsköpun en þau svæði sem framar standa. Niðurstöður þeirrar greiningar voru að til þess að leysa þessu þversögn þyrfti aðgerðir sem ýttu undir bæði eftirspurn og framboð af stuðningi til nýsköpunar.

Í greininni er bent á, að þó að mikill munur sér að virkni nýsköpunar milli þjóðríkja, s.s. mældri í fjárfestingu í rannsóknum og þróun, þá sé einnig mikill munur innan ríkja á milli ólíkra svæða.

Vandinn við ólíka virkni mismunandi landssvæða í nýsköpun sé ekki fyrst og fremst skortur aðgengi að opinberu fjármagni á þeim svæðum sem séu eftir á. Skýringin liggi fremur í einkennum stofnanna þessara svæða og nýsköpunarkerfi þeirra:

Nánar tiltekið, þá sýna fyrirtæki á þessum svæðum litla eftirspurn eftir rannsóknum og þróun og öðru inntaki [e. inputs] nýsköpunar, og skortir oft hefð fyrir samstarfi og trausti sín á milli og annarra þátttakenda í nýsköpun, svo sem háskóla. Fyrirtæki sýna ekki eftirspurn eftir inntaki nýsköpunar og þjónustu. Á sama tíma eru tækni- og rannsóknarinnviðir svæðisins ekki innvínklaðir í hagkerfi þess, og því geta þeir sem bjóða fram þjónustu nýsköpunar (tækni, þjálfun/menntun, framtaksfjármag) ekki borið kennsl á þarfir og hæfni fyrirtækja á svæðinu. Það er því skortur á samhæfingu milli svæðisbundins framboðs (af nýsköpunarþjónustu) og eftirspurn eftir nýsköpun (inntaki/þjónustu).

— Oughton, Christine & Landabaso, Mikel & Morgan, Kevin. (2002)[6].

Aðgengi fyrirtækja allstaðar að af landinu að úrræðum líkt og endurgreiðslum vegna rannsóknar og þróunar formlega það sama. Sárafá fyrirtæki utan af landi nýta sér þó þetta úrræði. Hvort lýsingin að ofan á vanda þeirra svæða sem aftar standa að eigi við um íslenskar landsbyggðir eða ekki, þá bendir margt til þess að vandinn sé að einhverju leyti að eftirspurn eftir nýsköpunarúrræðum sé ekki til staðar, vegna stofnanalegra einkenna svæðanna, líkt og höfundar greinarinnar telja.

Það er því mögulega ekki nóg að öll svæði hafi jafnt aðgengi að tækifærum til stuðnings við nýsköpun, heldur sé nauðsynlegt að styðja hvert svæði fyrir sig að þróa með sér hæfnina til þess að að nýta sér þessi tækifæri.


  1. Um okkur síða Kerecis ↩︎

  2. Svar ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra ↩︎

  3. Framlag til rannsókna og nýsköpunar eftir landshlutum 2014-2018 ↩︎

  4. Minnisblað vegna úttektar á skiptingu styrkja til rannsókna og nýsköpunar eftir landssvæðum ↩︎

  5. The Regional Innovation Paradox: Innovation Policy and Industrial Policy ↩︎

  6. Oughton, Christine & Landabaso, Mikel & Morgan, Kevin. (2002). The Regional Innovation Paradox: Innovation Policy and Industrial Policy. The Journal of Technology Transfer. 27. 97-110. 10.1023/A:1013104805703. ↩︎