Skip to content

Að skapa störf eða laða að fólk

Ekki er alltaf skýr munur gerður á hugtakinu nýsköpun og hugtakinu atvinnuþróun. Á stöðum þar sem fólksfækkun hefur orðið heyrist oft krafa frá íbúum og öðrum hagsmunaaðilum að það þurfi að „skapa ný störf“.

Er nýsköpun til þess fallin að svara þessu ákalli um ný störf?

Nýsköpun er oft talin fela í sér þversögnina um skapandi eyðileggingu. Nýsköpun getur bæði skapað og eytt störfum. Þó má segja að til lengri tíma litið sé líklegt að í heimi breytinga muni störfum fækka á þeim stöðum sem ekki ástunda nýsköpun.

Íslensk sjávarþorp spruttu upp á fyrri hluta 20. aldar í kjölfar nýsköpunar í sjávarútvegi. Vélvæðing fiskiskipaflotans og fjárfestingar í fiskvinnslu sköpuðu ný störf í þorpunum, sem kölluðu á fólk að flytja úr sveitunum.

En að sama skapi getur nýsköpun orðið til þess að fækka störfum. Með nýsköpun í bæði veiðum og vinnslu þarf sífellt færri hendur til að framleiða hvert tonn af fiski. Þar sem fiskurinn í sjónum er takmörkuð auðlind, veldur það því einfaldlega að færri vinna við sama verk.

Með nýsköpun í tækni verður öll vinna stöðugt sjálfvirkari og fækkar þannig störfum. Hingað til hefur mannkyninu yfirleitt tekist að láta sér detta í hug ný verkefni og störf kringum þau samhliða því að gömlum fækkar. En nýju störfin verða ekki endilega til á sömu stöðum og hin gömlu.

Sú hugmynd að framundan sé meiriháttar sjálfvirknivæðing í með tilkomu gervigreindar og annarrar tækni er oft kennd við 4. iðnbyltingu. Margar spár gera ráð fyrir að mun fleiri störf muni tapast í dreifðum byggðum vegna þessarar þróunar en í þéttbýli.

Hvort sem við tökum svo djúpt í árina að telja að framundan sé ný iðnbylting, eða áframhald á svipaðri þróun, þá verður að teljast líklegt að tæknin muni halda áfram að taka við af mannshönd og huga við vinnu. Þau samfélög sem vilji lifa af þurfa að finna leiðir til þess að geta nýtt sér hana til eigin hagsbóta, í stað þess að reyna að keppa við hana.

Fólkið skapi störfin, ekki öfugt

Þar sem náttúruleg skilyrði eru megin áhrifavaldur efnahagslegrar velgengni er viðbúið að slík skilyrði útskýri hvar fólki fjölgar eða fækkar. Í landbúnaðarsamfélögum má ætla að jarðkostir ráði miklu um hvar fólk sest að. Verstöðvar, og síðar sjávarþorp, mynduðust þar sem stutt var í gjöful fiskimið.

En með aukinni vélvæðingu, samgöngu- og samskiptabótum minnkaði vægi náttúrulegra aðstæðna. Þar sem fjárfest var í vélum: Frystihúsum, sláturhúsum, togurum, höfnum og vegasamgöngum, þar drífur að fólk. Í iðnvæddu samfélagi eru það atvinnutækin; vélarnar, sem skilja að þau samfélög sem blómgast og þau sem hnigna.

Öllu máli skipti því fyrir samfélög að verða valin til slíkra fjárfestinga. Ekki er óalgengt að stjórnmálamenn hvers svæðis gangi eftir fjárfestum með grasið í skónum og bjóði þeim gull og græna skóga kjósi þeir að byggja verksmiðju sína í þeirra heimabyggð.

Margir telja þó, að á þessu sé að verða mikilvæg breyting. Hugtök eins og „upplýsingasamfélagið“, „þekkingarstörf“ o.s.frv. vísar til þess að í auknu mæli sé það sem skilji að feig og ófeig samfélög sé ekki fjárfesting í dauðum hlutum líkt og verksmiðjum eða efnislegum innviðum. Það sem máli sé þekking, sköpunargáfa og hæfni fólksins sjálfs á staðnum: „mannauðurinn“.

Bandaríski borgarfræðingurinn Richard Florida hefur haft mikil áhrif á þessa umræðu með kenningum sínum um „ris hinnar skapandi stéttar“. En hver er þessi skapandi stétt? Florida lýsir því svo:

Ef þú ert vísindamaður eða verkfræðingur, arkítekt eða hönnuður, rithöfundur, listamaður eða tónlistarmaður, eða ef sköpunargáfa leikur lykil hlutverk í starfi þínu eða starfsemi, menntun, heilsugæsla, lögfræði, eða annarskonar starfsgrein, þá ertu hluti af henni[1].

Með sýn Florida snýst dæmið við. Megin slagkraftur verðmætasköpunar eru ekki náttúruauðlindir, og heldur ekki fjárfesting í iðnaði, heldur mannauður. Samfélög laði til sín skapandi fólk, sem síðan verði grundvöllur fyrir atvinnusköpun, ekki öfugt. Verkefni mismunandi landsvæða sé þess vegna að búa til aðstæður hjá sér sem laði að fólk.

Kamiyama í Japan

Líkt og víða annars staðar hafa stórborgir í Japan vaxið, meðan útlit er fyrir að margir smærri staðir muni þurrkast út á næstu áratugum. Eitt áhugavert dæmi stendur upp úr í Japan um andsvar við þessari þróun: Bærinn Kamiyama[2].

Kamiyama byggði grundvöll sinn á skógrækt, en þegar sá iðnaður tók að dala fór að halla undan fæti. Nú til dags búa um 5.000 manns í bænum, sem er aðeins þriðjungur þess sem var í kringum 1955, auk þess sem hlutfall ungs fólks hefur lækkað. Samkvæmt opinberum viðmiðum var Kaymiyama einn af þeim bæum sem áttu á hættu að hverfa á næstu áratugum.

En árið 2011 gerðist það í fyrsta sinn að fleiri fluttu til Kamiyama en fluttu þaðan. Á undanförnum árum hafa fjarvinnustöðvar ýmissa tæknifyrirtækja litið dagsins ljós, og atvinnustarfsemi sem ekki var hefðbundin í bæjum líkt og Kamiyama sprottið upp. Bærinn fékk orð á sér sem einn af þeim mest skapandi og lifandi í Japan. Það náði svo langt, að í lista viðskiptaritsins Forbes yfir mestu nýsköpunarborgir Japans árið 2017 var Kamiyama í 2. sæti á landsvísu.

Frá listamannadvöl yfir í fjarvinnustöðvar

Eins og gjarnan er gerðist þessi umbreyting ekki á einni nóttu. Félagsskapur íbúa á staðnum sem kom saman vegna menningar og sögulegra málefna við upphaf 10. áratugarins leiddist svo út í að hýsa listamannadvöl. Skipuleggjendur listamannadvalarinnar lögðu áherslu á jákvæð samskipti heimamanna við þá listamenn sem komu til dvalarinnar, og verkefnið tók fljótt að vinda upp á sig. Með tímanum fór að bera á því orðspori að í Kamiyama væri vel tekið á móti aðkomufólki að og þar væri áhugaverð sköpun og gerjun að eiga sér stað.

Félagsskapurinn sem stóð fyrir listamannadvölinni færði fljótlega út kvíarnar og hóf að bjóða upp á einskonar „vinnudvöl“ í svipuðum dúr. Frumkvæði var tekið við að finna fólk sem gæti hafið starfsemi á staðnum líkt og bakarí eða hönnunarstúdíó. Hugmyndin var að leita uppi fólk sem gæti lagt eitthvað til velferð bæjarins og fengið að máta sig við dvöl þar. Það var lán í óláni að mikið húsnæði stóð ónýtt í Kamiyama vegna fólksfækkunar, sem svo var markvisst hægt að tengja við áhugasama frumkvöðla.

Í kringum 2010 gerist það svo að fyrsta útibú tæknifyrirtækis að utan opnar í bænum. Fram að þessu höfðu stjórnvöld í Japan fyrst og fremst freistað þess að draga fyrirtæki líkt og flutningarmiðstöðvar og verksmiðjur út á land, og sveitarfélög reynt að lokka „mannaflsfreka“ starfsemi til sín með styrkjum og skattaafsláttum. Það sem dró fyrirtæki til Kamiyama voru hins vegar ekki skattaafslættir, heldur sá líffsstíl sem hægt var að bjóða starfsfólki í skapandi umhverfi og „sveitasælunni“ sem bærinn bauð upp á, og var valkostur við þann lífstíl sem stórborgir bjóða upp á. Meðal þess sem gerði þetta mögulegt var ljósleiðarasamband sem bærinn naut.

Skapandi fólksfækkun

Sú fólksfækkun sem átt hefur sér stað í Kamiyama frá miðbiki síðustu aldar er svo meiriháttar að litlar líkur eru á að hún gangi alveg til baka. Forsprakkar þeirra umbreytinga sem eru að eiga sér þar stað, og er skipulögð í Grænadalssamtökunum, viðurkenna þetta. Einn helsti leiðtogi samtakanna, Shinya Ōminami, lýsir viðhorfum þeirra með orðunum „skapandi fólksfækkun“, sem stefnir að sjálfbæru samfélagi, frekar en að telja hausa.

Ōminami tekur stefnu þeirra saman svo:

„Að sættast við raunveruleika fólksfækkunar. Að reyna ekki að breyta henni í hausum talið, heldur í innihaldi. Að stefna að samfélagi í jafnvægi, sjálfbæru og staðbundnu samfélagi sem sé síður háð landbúnaði með því að laða að ungt, skapandi og hæfileikaríkt fólk annars staðar frá, til þess að skapa heilbrigða samsetningu íbúa. Með því að nýta okkur tækniinnviðina sem eru hér og með því að gera okkur að verðmætari stað fyrir fyrirtæki sem nýtir sér nýstárlega nálgun á vinnuna“.

Margt í sögunni frá Kamiyama kallast á við hugmyndir þeirra Florida og Feld. Kamiyama lokkaði til sín atvinnustarfsemi með því að gerast spennandi og áhugaverður staður fyrir skapandi fólk, fremur en að bjóða mannaflsfrekum iðnaði bittlinga til þess að „skapa störf“ og vonast til þess að fólkið fylgdi á eftir.

Þá var umbreytingin leidd að innan, af heimafólki sem átti hagsmuna að gæta á staðnum til langs tíma. Hún fékk að eiga sér stað á eigin forsendum, þannig að eitt leiddi af öðru. Ekki var reynt að handstýra henni að ofan eða breyta staðnum á einni nóttu.

Skapandi fólksfækkun á N4

Að neðan má sjá tvo þætti sem gerðir voru af sjónvarpsstöðinni N4 um Skapandi fólksfjölgun.

Þáttur 1

Þáttur 2:


  1. Florida, Richard. The Rise of the Creative Class . Basic Books. Kindle Edition. ↩︎

  2. Kamiyama’s Success in Creative Depopulation ↩︎