Byggðatækni
Um þessa uppskrift
Þessi uppskrift er “spekúlatíf” í þeim skilningi að hún er ekki unnin úr dæmum sem þegar eru til staðar, heldur tillaga að því sem gæti orðið út frá reynslu úr ýmsum áttum.
Byggðatækni (e. region tech) gengur út að nýta tækni og nýsköpun til þessa að leysa sértæk vandamál dreifðra byggða. Farvegur slíkrar nýsköpunar gæti verið alþjóðleg miðstöð sem stefnir saman rannsakendum og frumkvöðlum til þess leysa áskoranir þessu tengdu.
Leiðangrar
Hugmyndin um alþjóðlega byggðatæknimiðstöð er byggð á kenningunum um leiðangursmiðaða nýsköpun. Leiðangursmiðuð nýsköpun gengur út á að beita nýsköpun til að leysa stórar samfélagslegar áskoranir. Hún gerir það með því að takast á hendur leiðangra (e. missions) sem eru skýrt skilgreind og metnaðarfull tímasett markmið.
Klassískt dæmi um leiðangra í þessu skilningi eru tunglferðir bandaríkjanna á 7. áratungum, þar sem markmið var sett um að koma manni til tunglsins á innan við áratug. Með þeim fjárfestingum sem settar voru í rannsóknir, þróun og beina nýsköpun í tengslum við að ná þessu markmiði var lagður einn af hornsteinum nýrrar tæknibyltingar.
Að leysa áskoranir dreifðra byggða
Hlutverk byggðatæknimiðstöðvarinnar væri að leysa mikilvægar áskoranir sem steðja að dreifðum byggðum með nýsköpun. Áskoranir sem hafa áhrif á dreifðar byggðir eru oft ólíkar þeim sem borgir standa frammi fyrir. Vegna þess hversu sterkara nýsköpunarvistkerfið er í borgum, er hætta á að nýrri þekkingu og tækni sé síður beitt til að leysa áskoranir úti á landi.
Oft á tíðum er niðurgreiðslum og sporslum hvers konar beitt til að jafna aðstöðumun milli borgar og landsbyggða. Markmið byggðatækni væri ekki að draga tímabundið úr afleiðingum vandamála dreifðra byggða með plástrum, heldur að leysa vandamálin, og jafnvel snúa þeim upp í tækifæri.
Slagkraftur og stærð
Eitt af vandamálum nýsköpunar sem beinir sér að áskorunum dreifðra byggða er skali. Sé lausn þróuð fyrir borgir sem tengist t.d. samgöngum, er hægt að koma henni í gagnið til fjölda notenda í aðeins einum stað. Það myndi á móti aldrei svara kostnaði að leggja í miklar rannsóknir og þróun fyrir lausn sem ætlað er fyrir aðeins eitt þorp eða smábæ. En þó að einstaka bæir, þorp eða sveitir séu, eðli málsins samkvæmt mannfáir, þá búa enn milljarðar manna í einhverskonar dreifbýli.
Einstakt þorp telur mögulega 500 manns, en þúsundir slíkra þorpa er að finna um allan heim, sem oft á tíðum glíma við svipaðar áskoranir. Lykillinn að því að geta fjárfest í lausnum fyrir dreifðar byggðir er því að geta skalað lausnir frá einu þorpi til margra. Þetta er ástæða þess að byggðatæknimiðstöðin ætti að vera alþjóðleg, og gæti til að mynda unnið á evrópskum eða norrænum vettvangi.
Viðfangsefni
Lykillinn að starfsemi miðstöðvarinnar er að takast á við fá en mikilvæg viðfangsefni í einu. Í anda leiðangursmiðaðrar nýsköpunar, þurfa áskoranirnar sem tekist er á við að vera metnaðarfullar, þ.e.a.s. markmið sem skipta samfélagið miklu máli en óvíst er hvernig og hvort hægt sé að leysa. Þá þurfa markmiðin að vera orðuð á þann hátt að ótvírætt sé hvort þau hafi náðst eða ekki, og þau þurfa að vera tímasett.
Þetta er gert til þess að tryggja aðhald og ábyrgð, einhverskonar skýran endapunkt í annars óræðu ferli nýsköpunar.
Dæmi um möguleg viðfangsefni gætu verið:
Samgöngur
Í borgum hafa komið fram ýmsar nýjungar undanfarið sem tengjast samgöngum innan þeirra. Sem dæmi um þetta eru rafskutlur, sem hægt er að leigja í nokkrar mínútur í senn líkt og Hopp á Íslandi. Ýmsar útfærslur á leigubílastarfsemi gegnum app, s.s. Uber. Þá hefur orðið rafvæðing á stórum hluta af einkabílaflotanum, með tilheyrandi hleðslustöðvum og annarri umbreytingu á orkunotkun, og jafnvel reiðhjól eru að rafvæðast og eru nýtt með deilihagkerfinu.
Þessi þróun hefur að sjálfsögðu að einhverju leyti áhrif á samgöngur í dreifbýli, en er fyrst og fremst drifin áfram innan og fyrir borgir. Á sama tíma er fjöldi áskorana tengdum samgöngum til staðar í dreifðum byggðum, bæði innan byggðarlaga, innan sama svæðis og auðvitað á milli landshluta.
Hvernig myndu samgöngur í anda deilihagkerfisins vera útfærðar úti á landi? Væri hægt að gera almenningssamgöngur innan sama landshluta snjallari með notkun smáforrita? Hvaða sértækar áskoranir eru við að skipta yfir í græna samgöngumáta í dreifðari byggðum?
Smásala
Hamóna
Verslunin Hamóna á Þingeyri Mynd: Hamóna
Á mörgum smærri stöðum reynist erfitt að halda uppi dagvöruverslunum, svo íbúar geti keypt mjólk, brauð og aðrar nauðsynjar í heimabyggð, sem telst til nauðsynlegrar grunnþjónustu. Til dæmis veitir Innviðaráðuneytið reglulega tugum milljóna til styrkja til verslana í dreifbýli fjarri stærri þéttbýliskjörnum af þessum ástæðum[1].
Þó slíkir styrkir kunni að vera bæði nauðsynlegir og réttlætanlegir, hafa þeir þann galla að þeir miða ekki að því að leysa vandann, þ.e. rekstrarforsendur smásölu í strjálbýli. Í einhverjum tilfellum gætu þeir í raun viðhaldið honum, þar sem óhagstæð form og aðferðir njóta fyrirgreiðslu myndast ekki rúm fyrir nýjar aðferðir.
Á sama tíma og þessi áskorun er til staðar er mikil nýsköpun að eiga sér stað í smásölu í stórmörkuðum, þar sem sjálfsafgreiðsla er að ryðja sér til rúms, og erlendis eru heilu dagvöruverslanirnar reknar án þess að nokkur starfsmaður sé til staðar í verslunarrýminu.
Hvernig gæti slík tækni aðstoðað við að halda uppi dagvöruverslun í smærri og afskektari stöðum? Væri mögulega hægt að finna rekstrargrundvöll fyrir verslun á smáum stöðum, með því að þurfa ekki að borga starfsmanni við að sitja yfir henni? Hvaða sérstöku áskoranir og jafnvel tækifæri eru í því að þróa sjálfsafgreiðslulausnir fyrir strjálbýli, og hvernig væri hægt að beita tækni til þessa?
Skipulag og starfshættir
Ljóst er að byggðatæknistofnunin þarf að takast á við flókin úrlausnarefni og beita sér á hátt sem ekki væri hægt án hennar. Til þess þarf hún að laða að sér sérhæft, metnaðarfullt og hæfileikaríkt starfsfólk og samstarfsaðila. Æskilegast væri að þetta starfsfólk og samstarfsaðilar væru búsettir í dreifðum byggðum, enda myndi nærvera og starfsemi þeirra verða þannig hluti af því að rækta vistkerfi nýsköpunar þar sem þeir eru staðsettir.
Til þess að þetta sé mögulegt þarf miðstöðin að vinna 100% án staðsetningar, það er að segja, allt starfsfólk og aðrir þátttakendur geti verið búsettir hvar sem er án þess að miðstöðin hafi eiginlega miðju. Nú þegar vinna ýmis tæknifyrirtæki eftir þessari forskrift, svo ýmsar aðferðir og skipulagshættir hafa verið þróaðar til þess að vinna þannig. Með þessu móti skapast tækifæri til þess að vinna að taka þátt í sérhæfðu og háþróuðu umhverfi tækni og nýsköpunar, jafnvel frá afskekktustu stöðum. Æskilegt væri jafnframt, að starfsfólk miðstöðvarinnar væri landfræðilega dreift um ákveðið svæði, s.s. Evrópu, Norðurlönd eða NORA svæðið, svo hægt sé að þróa lausnir sem hægt sé að skala til sem flestra svæða.
Lexíur leiðangursmiðaðra stofnana
Þó uppskriftin að byggðatæknimiðstöð sé ekki byggð á áþreifanlegum dæmum úr fortíðinni, eru til margar stofnanir sem hafa stundað leiðangursmiðaða nýsköpun sem hægt er að læra af.
Tengsl við hið opinbera
Byggðatæknimiðstöð yrði að öllum líkindum opinber stofnun, eða að minnsta kosti í eigu hins opinbera. Mikilvægt er að huga að tengslum sem slík stofnun hefur við stjórnkerfið og stjórnmálamenn.
Sjálfstæði frá pólitíkinnni
Leiðangursmiðuð stofnun þarf að hafa sjálfstæði og frelsi frá dutlungum að ofan. Stefnumótun og breytingar á henni eiga að verða vegna innri þarfa og þegar niðurstöður af þeim tilraunum sem ráðist er í kalla eftir því. Pólitísk stjórnarskipti og ný sjónarmið að ofan meiga ekki ráða för.
Þá á leiðangursmiðuð stofnun ekki vera ofurseld þeim hagsmunamálum eða pólitísku áherslum sem einkenna hverja stund. Hún þarf að vera nægjanlega sterk og sjáflstæð til þess að verða ekki ofurseld hagsmunagæslu ákveðinna hópa, svæða eða stjórnálaafla.
Tengsl við einkaaðila
Líkt og á við um opinber tengsl þarf að tryggja að stofnunin hafi nægjanlegt sjálfstæði gagnvart einkaaðilum til að fylgja eigin kúrs og setja lausnina á samfélagslegum áskorunum í forgrunn. Til þess að gera það þarf oft á tíðum að kalla til fjölbreytta samstarfaðila, þjónustuveitendur og verktaka.
Fjölmörg dæmi eru um hvernig nýsköpunarleiðangrar hins opinbera hafi drifið áfram verðmætasköpun hjá einkaaðilum, jafnvel hrundið af stað nýjum mörkuðum.
Áhættan við útvistun
Hins vegar er mikilvægt að útvistun opinberrar og leiðangursmiðaðrar stofnanar sé á forsendum þess að leysa samfélagslegar áskoranir, og verði ekki að "spena" fyrir einkaaðila sem sæki sér rentur frá hinu opinbera umfram þau verðmæti sem þeir leggi til.
Bygggðatæknimiðstöð verður að vara sig á að útvista ekki kjarna hæfni sinni annað. Undanfarna áratugi hefur orðræða þess efnis að starfsmenn opnberra stofnana séu síður skapandi, hugmyndaríkir og áhættusæknir leitt til einskonar minnimáttkenndar meðal opinbera geirans. Þetta getur skapað þrýsting um að æ fleiri svið starfsemi og þekkingarsköpunar séu útvistuð til einkaaðila, oft ráðgjafafyrirtækja.
Gangi þetta of langt getur opinber stofnun misst innri hæfni til þess að vera leiðandi í eigin málum, og orðið þannig auðvelt fórnarlamb sérhagsmuna. Sérstaklega er þetta alvarlegt innan stofnana sem ætlað eru að stunda nýsköpun, þar sem markiðið er að læra af mistökum yfir langan tíma.
Með því að útvista of stórum hluta af sinni kjarnastarfsemi til aðila s.s. ráðgjafafyritækja, er hætta á því að lærdómar tilraunanna endi ekki hjá stofnunninni sjálfri, heldur ráðgjafafyrirtækjum, og innri hæfni stofnunarinnar til skapandi starfs tapist.
Fjármögnun og rekstur
Til þess að geta uppfyllt hlutverk sitt, þarf stofnunin að geta tekist á við metnaðarfull viðfangsefni með langtíma ramma. Verkefni ætti að skoðast með minnst 10 ára áætlunum. Ljóst er að langtíma kjölfesta í fjármögnun er því nauðsynleg, sem gæti komið frá hinu opinbera, jafnvel á Evrópska vísu.
Mikilvægt er að halda til haga þeim ávinningi, og beinum og óbeinum tekjum, sem starf miðstöðvarinnar getur leitt af sér. Annarsvegar er hægt að meta þann kostnað sem sparast við að niðurgreiða hin ýmsu vandamál og áskoranir sem dreifðar byggðir verða fyrir, og þannig setja krónutölur á að leysa þau. Þetta verður þau alltaf ákveðin smættun. Við það bætist svo sá samfélagslegi ávinningur sem orði getur við að efla betur dreifðar byggðir.
Tekjurnar að ofan eru einskonar ytri áhrif, og reiknast ekki beint í efnahagsreikning miðstöðvarinnar. Hins vegar er vel mögulegt að miðstöðin afli sér tekna, m.a. með þjónustu, ráðgjafar og rekstrarsamningum við sveitarfélög og svæðisbundin stjórnvöld víðsvegar um heim. Þá gæti eitthvað af afrakstri miðsvöðvarinnar leitt til viðskiptalegra tækifæra og jafnvel fjármagnsmyndunar. Með nýsköpun og þróun miðstöðvarinnar gætu orðið til vörur og þjónusta sem leitt gætu af sér dótturfélög með viðskiptalegan hagnað. Nærtækt dæmi um slíkt er til að mynda fyrirtækið Carbfix, sem þróað var og er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, sem nú er metið á milljarða króna, að undangengnu löngu tímabili rannsókna og þróunar.