Sérhæfing og klasar
Snjöll sérhæfing
Snjöll sérhæfing (e. smart specialisation) er nálgun sem hefur haft áhrif á stefnumörkun undanfarin 20 ár, m.a. hjá Evrópusambandinu. Með þeirri nálgun er horft til þess að landssvæði byggi á eigin styrkleikum og sérhæfi sig í ákveðnum geirum, með því að þróast markvisst í átt að einhverskonar sérhæfingu.
Dæmi um þetta gæti verið áhersla Flæmingjalands í Belgíu á heilsutengda nanótækni, eða áhersla Andalúsíu á Spáni á flugiðnaðinn[1]. Í íslensku samhengi mætti mögulega benda á sérhæfingu í nýsköpun tengda sjávarútvegi eða orku. Í grunninn gengur þessi stenfa út á að ekki geti allir verið góðir í öllu, og skynsamlegt geti verið fyrir mismunandi svæði að einbeita sér að því að sérhæfa sig í einhverju sem þau geti verið nógu góð í til þess að vera samkeppnishæf á alþjóðlegum vettangi.
Í hverju á að sérhæfa sig?
Þó þetta sé að mörgu leyti byggt á almennri skynsemi, vakna þó margar spurningar. Hver á að ákveða í hverju á að sérhæfa sig? Á að taka meðvitaða ákvörðun um það, eða láta það gerast "að sjálfu sér"? Fylgismenn snjallrar sérhæfingar leggja gjarnan áherslu á að ákvörðunin sé tekin með ferli að neðan (e. bottoms up) en nákvæmlega hvernig á að skipuleggja slíkt ferli er vandasamt verk. Um leið og sérhæfing er orðin bundin í stefnumörkun, þar sem fjárfestingum og skipulagi er meðvitað beint í átt að ákveðnum greinum, fer það fljótt að snerta á sérhagsmunum ákveðinna fyrirtækja, stofnana eða geira.
Afmörkun svæðis
Önnur spurning snýr að því hvernig skilgreina skuli svæði. Í dæmunum að ofan um Flæmingjaland og Andalúsíu er um að ræða svæði sem telja íbúa sem eru margfalt fleiri en Ísland. Eiga Vestfirðir að sérhæfa sig í einhverju ákveðnu, og Suðurland öðru, til dæmis? Eða á Ísland að ákveða að sérhæfa sig sem ein heild, eða jafnvel sem hluti af stærra alþjóðlegu svæði?
Umbreyting eða viðhald
Á móti hugmyndinni um að svæði eigi að sérhæfa sig í eigin styrkleikum, mætti tefla fram gagnrýninni um leiðangursánauð (e. path dependency). Það er að segja, að samfélög geti fests í ákveðnum hjólförum þar sem sérhæfing þess áður fyrr geri því erfiðara fyrir að feta nýjar brautir. Að þó að eitthvað hafi gefist vel áður, þýði ekki að það sé rétta leiðin til frambúðar.
Til að gæta sammælis þarf því að benda á að stefnan um snjalla sérhæfingu gengur út á að uppgötva nýjar leiðir til verðmætasköpunar, ekki til að viðhalda óbreyttu ástandi. Svo dæmi sé tekið, á stað þar sem túrismi sé mikilvæg atvinnugrein, þá geti snallri sérhæfingu verið beitt til þess að þróa staðfrænar tæknilausnir sem geti leitt til mikilvægrar umbreytingar þess geira[2]. Snjallri sérhæfingu eigi ekki að beita til þess að viðhalda ríkjandi jafnvægi, t.d. með því að niðurgreiða ferðamannaiðnaðinn á ákveðnu svæði, heldur til umbreytingar á honum.
Klasar
Klasar er nálgun sem á margt skilt við snjalla sérhæfingu. Umræða um klasa tengd nýsköpun á Íslandi hefur verið áberandi, og árið 2021 var sett sérstök Klasastefna fyrir Ísland[3]. Í henni er stuðst við eftirfarandi skilgreiningu á klasa:
Hópur tengdra fyrirtækja og stofnana sem staðsettur er á afmörkuðu landssvæði þar sem tilvist hópsins og tengsl milli aðila eflir samkeppnishæfni fyrirtækja innan hans. Klasi er því landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni og einnig í samvinnu.
Áhersla er hér lögð á að nýsköpun sé ekki bara hægt að skoða sem afrakstur einstaka fyrirtækja og eininga, heldur skipti einmitt tengsl aðilanna máli sem mynda einskonar kerfi. Þegar samþjöppun fyrirtækja og annarra aðila í tengdum geira á sér stað, getur myndast slagkraftur og möguleikar á verðmætasköpun sem saman sé meiri en summa allra aðilana. Hæfileikar, þjónusta, innviðir og aðrar mikilvægar forsendur nýsköpunar dragast að klösunum sem ákveðin þungamiðja, og hugmyndir, þekking og viðhorf flæða á milli.
Klasasamstarf
Á Íslandi hafa margar formlegar einingar verið stofnaðar í nafni klasa. Þar má nefna sem dæmi Sjávarklasann, Ferðaklasann og Fjártækniklasinn. Þessar einingar nefnast klasasamstarf og hafa yfirleitt á stefnuskrá sinni að auka samstarf, efla tengsl á milli aðila innan ákveðins geira og vinna að sameiginlegum hagsmunar- og framfaramálum geirans, og hjálpa þannig til við að mynda klasa.
Í daglegu tali er oft vísað í þessar einingar sem "klasa" sem getur valdið misskilningi, en klasar eru óformlegt félagslegt fyrirbæri sem á sér stað hvort sem formleg eining sé fyrir hendi eða ekki.