Öfugt SVÓT
Öfugt SVÓT er aðferð til að snúa hinni þekktu svót-aðferðafræði á haus, til þess að fá fram skapandi sýn á stöðuna og setja spurningamerki við viðtekna sýn á málin
S.V.Ó.T. er skammstöfun sem stendur fyrir styrkleikar, veikleikar, ógnanir og tækifæri. Svót (e. SWOT) er greiningartæki sem á rætur að rekja til aðferða við fyrirtækjastjórnun 7. áratugarins og er í dag nýtt í ýmsu samhengi, frá því að greina samfélög og hópa, samtök, fyrirtæki eða stofnanir.
Svót er aðferð sem gjarnan er nýtt í upphafi áætlunagerðar. Aðferðin lítur annarsvegar inn á við, á samtök eða samfélög, og hins vegar út á við. Með svótinu eru styrkleikar og veikleikar tiltekins samfélags eða einingar listaðir upp, sem er sá hluti sem lítur inn á við. Þegar litið er út á við, í samhengi þess sem verið er að greina, eru ytri kraftar skoðaðir og tækifæri og ógnanir eru listaðar upp sem geta haft áhrif á eininguna sem er til skoðunar.

Svót og leiðaránauð
SVÓT getur verið ágætt tæki til að fá fram hugmyndum þátttakenda í stefnumótun um stöðu mála. En það er mikilvægt að líta á niðurstöður þess sem endanlega. Það gildir um bæði einstaklinga, samtök og samfélög, að sjálfsmyndir þess geta stundum verið hindrun við að horfa fram á við. Þannig heyrist setningar á borð við "nálægð við gjöful fiskimið" iðulega þagar styrkleikar sjávarbyggða eru metnar, þegar tæknibreytingar og samþjöppun hefur gert það að verkum að slík landfræðileg nálægð skiptir mun minna máli en fyrir 100 árum síðan. Að sama skapi geta fyrirfram mótaðar hugmyndir um eigin veikleika orðið til þess að fjölbreyttari tækifæri eru ekki nýtt, vegna þess að sjálfsmynd samfélagsins rýmar ekki við þær leiðir.
Þegar unnið er að stefnumótun í samfélögum eða samtökum sem standa frammmi fyrir tilvistarlegum vanda, getur verið mun mikilvægara að setja spurningar við viðteknar hugmyndir um eigin styrkleika og veikleika, frekar en að festa fyrirfram mótaðar hugmyndir í sessi.
Það sama á við þegar ytri aðstæður eru skoðaðar. Smáum samfélögum stendur oft ógn af breytingum sem eiga sér stað á stærri skala. Ný tækni, breyttar markaðsaðstæður eða ný samfélagsleg viðmið geta svipt þau efnahagslegum grundvelli sínum.
Þessar ytri breytingar sem eiga sér stað gera það yfirleitt án þess að smærri samfélög fái miklu um það breytt. Dæmi um þetta er aukin netvæðing og sjálfvirkni ýmissa þjónustu, hvort sem er í opinbera eða einkageiranum. Þetta leiðir til þess að útibúum lokar og þjónusta í heimabyggð dregst saman þannig að störfum fækkar. Hér er vissulega um ákveðna ógn að ræða, en það er mjög ólíklegt að lítið samfélag eitt og sér geti gert mikið til þess að breyta þessari þróun. Ef breyting er skilgreind sem ógn, er hættan sú að það leiði til hugarfars sem sjái ekki að sama skapi tækifæri í henni, og reyni fremur að sporna við henni en laða sig að nýjum veruleika hennar.
Þannig getur aukin net- og sjálfvirknivæðing þjónustu einnig orðið til þess að styrkja dreifðar byggðir.