Hvað er nýsköpun?
Nýsköpun er nýstárleg leið til að skapa verðmæti. Það sem er nýstárlegt í einu samhengi getur þó verið gamaldsags í öðru. Að sama skapi getur eitthvað sem leiðir til verðmætasköpunar fyrir einum leitt til taps annars. Í nýsköpun felst alltaf óvissa. En óvissa er ekki alltaf það sama og áhætta.
Gildi nýsköpunar er oftast óumdeilt. Allir helstu stjórnmálaflokkar tala fyrir nýsköpun, og nær öll lönd og svæði hafa á stefnu sinni að auka nýsköpun hjá sér. Þessi óumdeilanleiki getur leitt til þess að grundvallar spurningar um hugtakið koma ekki alltaf fram, eða forsendum þess storkað.
Hvað er nýsköpun og hvað er þá ekki nýsköpun? Er öll nýsköpun af hinu góða? Er framkvæmd og ferli verra þó það teljist ekki vera nýsköpun?
Ólíkar skilgreiningar
Til eru ýmsar skilgreiningar á þessu hugtaki. Þær þrengstu gera ráð fyrir að nýsköpun tengist eingöngu efnahagslegri starfsemi og viðskiptum, en þær víðustu ná til nær allrar mannlegrar iðju. Flestar skilgreiningar eiga einhverskonar snertiflöt sem útleggja mætti sem svo:
„Nýsköpun er nýstárleg leið til að skapa verðmæti“
Alþjóða staðlastofnunin (ISO) nær að draga saman kjarna flestra þeirra svo:
"new or changed entity, realizing or redistributing value"
sem útleggjast mætti á íslensku sem
“nýtt eða breytt fyrirbæri, sem raungerir eða endurúthlutar verðmætum”
Skilgreining Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) er svo: "An innovation is a new or improved product or process (or combination thereof) that differs significantly from the unit’s previous products or processes and that has been made available to potential users (product) or brought into use by the unit (process)"
Í skigreiningum um nýsköpun má yfirleitt finna tvö lykilhugtök: Nýstárlegt og verðmæti. Eftir því hvaða merkingu við leggjum í þau skilgreinast mörkin sem hugtakið nýsköpun nær til.
ISO staðallinn tiltekur jafnframt mikilvægar forsendur til hliðar við sína skilgreiningu. Hann bendir á, að "nýstárleiki" og "verðmæti" skilgreinist út frá þeim aðilum sem stunda nýsköpunina og öðrum hagaðilum sem málið varðar. M.ö.o. það sem er nýstárlegt fyrir einum aðila þarf ekki að vera það fyrir öllum öðrum, og það sem er verðmætt fyrir einum er það ekki endilega fyrir öðrum.
Nýstárlegt
„Ekkert er nýtt undir sólinni“
Ein frægasta uppfinning sögunnar er prenttækni Gutenberg á 15. öld. En ýmsar aðferðir til prentunar höfðu þó tíðkast víða um heim um aldir fyrir það í öðrum heimsálfum. Að sama skapi getur tiltekin tækni eða aðferð verið ný fyrir einu samfélagi, en verið vel þekkt annars staðar. Samkvæmt sumum skilgreiningum getur því falist nýsköpun í því að færa eitthvað gamalt inn í nýtt samhengi.
Stundum er horft á nýstárleika sem eins konar kvarða, þar sem annars vegar er um að ræða hægfara og varfærnar breytingar á einhverju, og á hinum enda ássins róttæka og meiriháttar breytingu á stuttum tíma. Tiltekið fyrirbæri er þá ekki annaðhvort nýsköpn eða ekki, heldur lítil nýsköpun eða mikil.
Ein leið er velta fyrir sér nýstárleika, er að velta fyrir sér hversu mikil óvissa felst í uppátækinu. Ef hægt er að reikna og og sjá fyrir afleiðingar af uppátækinu fyrirfram, þá er varla hægt að telja það til nýsköpunar. Ef mikil óvissa fylgir framtakinu vegna þess að forsendur eru ekki þekktar, er líklega um nýsköpun að ræða.
Á Íslandi eru til að mynda reknir 16 Subway samlokustaðir. Þegar umboðsaðili keðjunnar opnar nýtt útibú á nýjum stað í Reykjavík er hægt að sjá fyrir allar helstu forsendur staðarins: Hvernig hann verði rekinn, hvað þurfi í meginatriðum að gerast til þess að hann beri sig, o.s.frv. Ef einhverjum dytti í hug að opna Subway útibú á miðjum Vatnajökli væri ekki sama upp á teningnum. Að öllum líkindum þyrfti að endurhugsa allar aðferðir við rekstur; aðföng, starfsmannahald og markaðssetningu og því myndi fylgja mikil óvissa. Samlokustaður á jökli myndi þá teljast nýsköpun, þó söluvaran væri alveg eins.
Vara, aðferð eða ferli getur þótt nýstárlegt á einum stað, en verið vel þekkt á öðrum. Eitthvað getur jafnvel verið vel þekkt hjá einni kynslóð, eða innan ákveðinna geira eða iðnaðar, en þótt mjög nýstárlegt þegar það er yfirfært yfir á önnur svið. Að taka upp gamlar aðferðir sem eru gleymdar nýjum kynslóðum getur jafnvel verið eins konar nýsköpun.
Þetta þarf að hafa sérstaklega í huga þegar við ræðum nýsköpun í dreifðum byggðum, eins og farið verður nánar í síðar.
Verðmæti
„Eins dauði er annars brauð“
Seinna lykilorðið er verðmæti, og aftur ræður skilgreining okkar á því hvað við teljum til nýsköpunar og hvað ekki. Ferli getur ekki talist nýsköpun nema í því felist hagnýting til verðmætasköpunar. Leonardo da Vinci hannaði á 15. öld tæki sem var forveri þyrlu, en það tæki kom svo vitað sé aldrei til notkunar, og skapaði því ekki nein verðmæti. Þyrla da Vinci gæti talist til hugmyndar, hönnunar, jafn vel uppfinningar, en ekki nýsköpunar, af þessu orsökum.
Ef Apple hefði skapað fyrsta eintakið af iPhone og svo stöðvað framleiðsluna og stungið því í skúffu, gætum við talið iPhone til uppfinningar, en ekki nýsköpunar, því síminn skapar engin verðmæti fyrr en hann er tekinn í notkun. Nýsköpun er því alltaf skilgreind út frá einhverskonar hagnýtingu.
Verðmæti og tekjur
Skilgreiningin á verðmætum snertir svo aftur grundvallar afstöðu okkar til tilverunnar, eða því sem oft er kallað verðmætamat. Þrengstu skilgreiningar á verðmætum nýsköpunar myndu aðeins horfa til efnahagslegra verðmæta, og þá aðeins þeirra sem mælast í krónum og aurum. Skapi eitthvað nýstárlegt tekjur, þá sé það nýsköpun. Skapi það hins vegar engar rekstrarlegar tekjur, sé það þar með ekki verðmætaskapandi og ekki nýsköpun.
En þetta sjónarhorn er takmarkandi. Sum nýsköpun skapar eitthvað sem klárlega telst til verðmæta án þess að mikið af peningum skiptist um hendur. Á hverjum einasta degi flétta tugir milljóna manna upp fróðleik í alfræðiritinu Wikipediu. Aðgengi að ritinu er verðmætt fyrir þá sem það nota. Tekjur ritsins eru þó ekki miklar miðað við að vera ein af mest sóttu vefsíðum heims. Raunar er hægt að færa rök fyrir því að verðmæti ritsins Wikipedia grundvalist á því að vera opið öllum ókeypis, og að efni hennar sé skrifað af ólaunuðum sjálfboðaliðum. Að takmarka verðmætamat Wikipedia við það sem kemur fram í rekstrarreikningi samtakanna sem standa að henni væri því mikil smættun.
Annað dæmi gæti verið félagsheimili, sem byggt er af sjálfboðaliðum og svo rekið að mestu fyrir greiða og dugnað. Þó það sé nýtt fyrir skemmtanir og samkomur í bænum án þess að rukkuð sé nema málamynda leiga, skapar það engu að síður samfélaginu verðmæti sem ná langt út fyrir það sem ársreiknngur þess myndi sýna.
Gróði og tap
Wikipedia hlýtur því að teljast nýstárleg leið til að skapa verðmæti, þó hún afli ekki mikilla viðskiptalegra tekna. Verðmætasköpun og peningalegar tekjur haldast því ekki endilega í hendur. Að sama skapi verður að hafa í huga, að eins verðmæti geta leitt til annars taps. Verksmiðja sem stundar mengandi iðju getur skapað eigendum sínum mikinn hagnað til skamms tíma, en hafi hún neikvæð ytri áhrif á náttúru eða samfélag er viðbúið að hún skapi öðrum mikið tjón.
Að sama skapi getur viss rekstur, t.d. sá sem grundvallast á einokun, skapað miklar efnahagslegar tekjur byggðar á sinni stöðu, án þess þó að samsvarandi verðmætasköpun fyrir samfélagið verði til, oft kallað “rentur”. Lyfjafyrirtæki sem hefur einkarétt á framleiðslu á lífsnauðsynlegu lyfi getur ákveðið að hækka verð þess upp úr öllu valdi. Við þetta aukast efnahagslegar tekjur fyrirtækisins frá einu ári til hins næsta, en erfitt er að halda því fram að við það hafi aukin verðmæti orðið til, þar sem færri geta nýtt sér lyfið.
Skapandi eyðilegging
Oft er talað um að nýsköpun sé „truflandi“ (e. disruptive) og að í henni felist „skapandi eyðinlegging“. Með þessu er átt við, að nýsköpun getur skapað verðmæti á einum stað, en eytt þeim á öðrum. Nýsköpun við veiðar og vinnslu í íslenskum sjávarútvegi er dæmi um það. Með fjárfestingu í tæknivæðingu, og samhliða samþjöppun greinarinnar, varð hægt að vinna hvert tonn af fisk með mun færri höndum en áður var.
Afleiðingar af þessari umbreytingu voru þó ekki jafnar á heildina. Sum byggðarlög töpuðu við þetta efnahagslegum grundvelli sínum, með tilheyrandi tómum bryggjum og yfirgefnum atvinnuhúsum, meðan önnur blómstruðu og einstaka aðilar urðu mjög auðugir.
Að hafa tök á framtíðinni
Þó nýsköpun sé vafalaust grundvöllur lífsgæða og framfara, er ekki þar með sagt að öllu sem teljist nýsköpun eigi að að hampa gagnrýnislaust. Spurningin um þau verðmæti sem hún skapar er ekki hægt að taka út fyrir sviga, og þarf að meta með gagnrýnum hætti.
Nýsköpun er því alltaf samhliða ógn og tækifæri. Í hnattrænum heimi þar sem alþjóðavæddir markaðir tengja saman örlög sérhvers krummaskuðs frá Malasíu til Mjóafjarðar er tæpast hægt að velja sér að standa fyrir utan áhrif nýsköpunar. Allir verða á einhvern hátt þolendur hennar, fyrr eða síðar. Valið stendur aðeins um að vera gerandi í henni eða ekki. Að taka þátt í að móta framtíð hennar eftir eigin höfði og hagsmunum, eða láta aðra gera það fyrir sig.
Að ná tökum á nýsköpun, þ.e. að finna nýjar leðir til að skapa verðmæti, er lykillinn fyrir samfélög að því að skapa sér sína eigin framtíð. Hvort, af hverjum og hvernig nýsköpun er stundum skiptir því ekki síður máli en formleg lýðræðsleg ferli við valdeflingu og sjálfræði.
Óvissa og áhætta
Í nýsköpun felst alltaf óvissa.
Í daglegu tali gerum við ekki alltaf greinarmun á hugtökunum óvissu og áhættu. En í muninum felst ákveðinn skilningur sem útskýrir eðli nýsköpunar. Almenn skynsemi kennir okkur, að með því að gera eitthvað öðruvísi en við höfum áður gert, gætu afleiðingarnar að sama skapi orðið aðrar en venjulega. Við getum litið svo á að í þessu felist áhætta. En að gera hlutina alltaf með sama hættinum getur líka verið áhættusamt.
Með því að bóka herbergi á sama hóteli á Tenerife og í fyrra, getum við aukið líkurnar á að að fá þá upplifun sem við sækjumst eftir. Við getum litið svo á að það að velja nýtt hótel sé áhættusamt, því að í því felist óvissa. En á þversagna fullan hátt, getur viðleitnin til að forðast óvissu stundum verið sú áhættusamasta. Þetta á sérstaklega við í heimi umbreytinga. Það fyrirtæki sem breytir aldrei um vöruframboð, eða leitar leiða til að uppfæra framleiðsluferla í samræmi við nýjustu tækni, eða reynir fyrir sér í nýjum mörkuðum, mun fyrr en síðar verða undir í samkeppni við önnur fyrirtæki sem það gera.
Að sama skapi eru fá samfélög sem ekki þurfa að þróa eigin atvinnuhætti og tilvistargrundvöll í takt við umbreytingar sem verða á hinu stóra sviði heimsins. Þau samfélög þar sem ákveðin tilvistargrundvöllur er mjög rótgróinn geta átt hvað erfiðast með að aðlagast slíkum breytingum. Það getur því verið mjög áhættusamt að forðast alltaf óvissu. Samfélög sem eru of föst í viðjum vananst geta orðið undirseld einskonar leiðaránauð: "Svona hefur þetta alltaf verið" eða "það sem hefur alltaf verið grundvöllur okkar er ..." geta orðið viðkvæði sem kemur í veg fyrir að hægt sé að feta í ný fótspor.
Áhætta samfélagsins og áhætta einstaklingsins
Þó óvissa sé oft leið til að forðast áhættu heildarinnar sem felst í stöðnun, getur hún verið mjög áhættusöm fyrir einstaka frumkvöðul eða fyrirtæki. Í nýsköpun felst alltaf tilraun, og þegar um róttæka nýsköpun er að ræða þar sem nýstárleiki er mikill verða líkurnar á að tilraunin gangi ekki upp að sama skapi miklar. Nýsköpun getur því hæglega verið mjög áhættusöm fyrir þann einstakling eða einingu sem hana stundar. Þegar róttæk nýsköpun gengur upp, getur hún þó leitt til svo mikilla verðmæta fyrir samfélagið allt að áhættan verður þess virði á heildina litið.
Til þess að takast á við þessa þverstæðu, þykir því oft réttlætanlegt að opinberir aðilar fjármagni nýsköpun, dragi úr áhættu einstaklingsins en ýti jafnframt undir mögulega verðmætasköpun heildarinnar. Yfirleitt er það ríkið sem fjármagnar grunn þekkingarsköpun við rannsóknir og þróun. Grundvallar nýsköpun á tækni er að sama skapi oft framkvæmd eða studd af opinberum aðilum af sömu ástæðu.
Nýstárlegt, verðmætt, óvissa
Lykilhugtökin sem fylgja okkur eftir þegar við ræðum nýsköpun í dreifðum byggðum eru því þrjú: Nýstárlegt, verðmætt og óvissa. Við munum sjá hvernig skilningur okkar og möguleg ólík sjónarhorn á þessi einkenni nýsköpunar getur haft afgerandi áhrif. Með því að dýpka skilning okkar á fyrirbærinu nýsköpun getum við vonandi frekar áttað okkur á mögulega margræðu eðli hennar við ólíkar aðstæður, svo sem milli þéttbýlis og dreifbýlis.