Nýsköpunarstjórnir
Á hið opinbera að „vera með puttana“ í nýsköpun?
Á tímabili var orðið nýsköpun nær aðeins tengd við einkageirann. Á hinum frjálsa markaði leitist fyrirtæki í samkeppni við hvort annað við að finna nýjar leiðir til að gera meira fyrir minni tilkostnað, og noti þannig nýsköpun til að finna upp nýjar aðferðir og ferla.
Byltingarkenndar framfarir í tækni og nýsköpun verði þegar dáðadrengir fái snjallar hugmyndir og fylgi þeim eftir með dugnaði og þori. Til þess leitist þeir eftir fjármagni frá framtaksfjárfestum sem þori að veðja á nýjar hugmyndir.
Samkvæmt þeirri einfölduðu klisju sem dregin var fram að ofan, er hlutverk hins opinbera lítið. Helst eigi ríkið að passa upp á að vera ekki fyrir. Misvitrir stjórnmálamenn sem ýmist séu drifnir áfram af tækifærismennsku eða hugmyndafræðilegum löftköstulum eigi ekki að „vera með puttana“ í nýsköpun. Þá séu opinberir starfsmenn ekki líklegir til afreka í nýsköpun. Þeir séu óskilvirkir og hugsi ekki út fyrir boxið. Séu strengjabrúður ósveigjanlegs skrifræðis sem gefi lítið svigrúm til tilrauna eða nýrra hugmynda.
Þessi mynd er dregin hér upp af muninum af einkaaðilum og opinberum þegar kemur að nýsköpun er einsskonar strámaður, sem fáir orða jafn einstrengingslega. En viðhorf sem byggja á henni undirbyggja oft ómeðvituð viðhorf á ályktanir.
Þegar litið er til uppruna þeirra nýsköpunar og tæknibreytinga sem nú tröllríða samfélaginu, kemur í ljós að hið opinbera hefur oft leikið lykilhlutverk í að hrinda þeim af stað. Og þó að flestir hafi upplifað trénaða skrifffinnsku hins opinbera á eigin skinni, eru einnig fjölmörg dæmi þess að opinbert fjármagn sé mun áhættusæknara og framsýnna en einkafjármagnið, jafnvel þó einkafjármagnið fari stundum undir nafninu „áhættufjármagn“.
Nýsköpunarstjórnin
Eftir seinni heimsstyrjöl starfaði svokölluð Nýsköpunarstjórn á Íslandi, sem beitti sér fyrir umbreytingum á íslenskum sjávarútvegi. Mynd: Morgunblaðið, 18. febrúar 1947.
Frumkvöðlaríkið
Fræðikonan Mariana Mazzucato hefur verið ötul talskona þess að viðurkenna þátt hins opinbera í leiða framfarir á sviði nýsköpunar og tækni. Lengi hefur verið viðurkennt að ríkið styðji við undirstöður nýsköpunar, s.s. með þeirri þekkingarsköpun sem felst í grunn rannsóknum, menntakerfinu o.s.frv. En Mazzucato hefur sýnt fram á að hlutverk ríkisins er mun virkara en það, og talar hún um hið opinbera sem frumkvöðul í þekktustu bók sinni The Entrepreneurial State.
Mikill hluti þeirrar tækni sem stærstu fyrirtæki Kísildals byggi á hafi verið annaðhvort fjármögnuð, eða beinlínis þróuð af opinberum aðilum. Stofnanir líkt og hin bandaríska DARPA, hvers opinbert markmið er að þróa tækni til varnarmála, stóð til að mynda fyrir þróun Internetsins, ýmsum framförum í gervigreind, GPS tækninni, myndrænunum tölvuviðmótum og svo mætti lengi telja.
Hlutverk einkafyrirtækja í tæknigeiranum líkt og Apple og Google hafi ekki alltaf verið að þróa grundvallar tæknina sem þau selja, heldur að koma henni á markað og finna leiðir til að hafa af henni tekjur. Ekki skyldi gera lítið úr því, en engu að síður falli það oft í skaut einkafyrirtækja að fleyta rjómann af tækni sem hafi verið þróuð með opinberu fjármagni.
Fjárfestingafjármagn til nýsköpunarfyrirtækja er oft kallað „áhættufjármagn“. Takmörk slíks framtaksfjármagns samkvæmt Mazzucato sé þó að það sé oft á tíðum of áhættufælið til þess að fjármagna grundvallar nýsköpun. Þó framtakssjóðir búist ekki við því að nema lítill hluti fjárfestinga sinna séu arðbærar, þurfi einstaka fjárfestingar yfirleitt að sýna fram á möguleika á arði innan um 5 ára. Nýsköpunin sem fjárfest í þarf svo ekki aðeins að skapa verðmæti, heldur verður að vera hægt að snúa þessum verðmætum upp í nægjanlegar tekjur til að réttlæta fjárfestinguna, sem er ekki endilega að sama líkt og rætt hefur verið í fyrri köflum.
Ólíkt framtakssjóðum úr einkageiranum getur ríkið leyft sér að vera mun þolinmóðari fjárfestir og þar með áhættusæknari. Krafan um skammtíma fjárhagslegan ábata er ekki sá sami. Þegar tækni líkt og internetið, gervigreind og sjónræn viðmót var þróuð óraði fáa fyrir því að af því myndi spretta iðnaður sem teldi ein stærstu fyrirtæki heims síðar. Þvert á þá algengu hugmynd að ríkið sé að keppa við frjálsan markað með umsvifum sínum er það oft einmitt hlutverk ríkisins að búa til nýja markaði með frumkvöðlastarfi sínu.
Myndband: Um leiðangursmiðaða nýsköpun
Fyrirlestur haldinn á Nýsköpunarvikunni 2022 um leiðangursmiðaða nýsköpun kenningar hagfræðingsins Mariönu Mazzucato.
Hnyggnandi byggðir og seigla
Í byggðum sem þola hafa mátt efnahagslega hnignun er spurningum um ólíkt hlutverk opinberrar fjárfestingar og einkafjármagns oft velt upp. Jafnvel blómlegustu samfélög sem þrífast og dafna við ákveðin skilyrði, ná oft á tíðum ekki að laga sig að stórfeldum efnahagslegum og samfélagslegum breytingum.
Þegar samfélög geta staðið af sér slíkar breytingar, er talað um að þau hafi seyglu eða aðlögunarhæfni. Þau annaðhvort finna leið til þess að laga sig að breytingunum og jafnvel færa sér þær í nyt, eða finna sér annan tilveru grundvöll.
Takist þetta ekki, verður oft til neikvæður spírall sem samfélög sogast eftir. Eitt af öðru hverfa fyrirtæki, stofnanir, loks fjölskyldur og fjármagn. Með hverri einingu sem hverfur eykst þrýstingur á hinar. Erfiðara verður að halda uppi þjónustu, eignir lækka í verði og svartsýni tekur við.
Við slíkar aðstæður eru vissulega dæmi þess að einkafjármagn komi til og fjárfesti, sérstaklega ef um er að ræða sérstök tækifæri sem verða ljós. Hins vegar er einnig margt sem heldur aftur af því, og torveldar að einkafjármagn leiki lykilhlutverk. Meðal þess er:
1. Samfélagið allt er undir álagi
Frá þverrandi þjónustu til hrakandi innviða og félagslegra þátta. Svo að ein eining megi þrífast þurfa margar stoðir að vera til staðar. Fyrirtæki sem ætlar sér að ráðast í ákveðna starfsemi þarf yfirleitt á annarri þjónustu að halda. Til þess að ráða til sín starfsfólk þarf að vera til staðar félagsleg þjónusta fyrir það, s.s. góðir skólar, tómstundir, félagslíf. Þá þurfa mörg fyrirtæki á ákveðnum innviðum s.s. fjarskiptum, orku, samgöngum o.s.frv. sem hætt er við að dragist aftur úr öðrum stöðum.
Þegar einkafjármagn metur fjárfestingakosti, er það yfirleitt á grunni einnar rekstrareiningar. Fjármagni er veitt í eitt hlutafélag, hvers efnahagsreikningur þarf að skila vissri ávöxtun í tæka tíð. Viðskiptaáætlunin þarf að sýna fram á þetta, en er í raun ekki síst háð sameiginlegum þáttum alls samfélagsins, ekki síður en sjálfum rekstri einingarinnar.
Til þess að hver einkafjárfesting fyrir sig geti orðið arðbær þarf því oft að treysta sameiginlegan grundvöll alls samfélagsins, og slíkar fjárfestingar er bæði ólíklegt og óheppilegt að einkaaðilar standi fyrir. Þessi ytri áhrif eru dæmi um það sem hagfræðin myndi kalla markaðsbrest.
2. Leiðaránauð
Þegar samfélög hafa byggt efnahagslegan grundvöll sinn ákveðnum forsendum sem svo hverfa, getur tekið langan tíma að feta nýja braut. Vegna leiðaðánauðar (e. path dependence) þarf oft að glíma við djúpstæðar breytingar á innviðum, hugsunarhætti, hæfni og þekkingu. Líkt og þegar um róttæka nýsköpun á sér stað getur ávinningur vissulega verið mikill. Hins vegar þarf að stíga mörg feilspor áður en ný slóð verður til. Vegna þess að þær umbreytingar sem eiga sér stað eru jafnan svo ólíkar þeim veruleika sem fyrir er, er árangur háður mikilli óvissu. Slík óvissa passar illa inn í Excel-skjal og verður því mjög erfitt að meta fjárfestingakosti. Sá tími sem vænta má ávinnings af fjárfestingunni er einnig líklega lengri en ávöxtunarkrafa einkafjármagns ætlast til.
3. Atgervisflótti
Við atgervisflótta hverfa fjárfestar jafnframt á braut. Fyrirtæki, fjármagnseigendur og fjármálastofnanir fara annað. Frumkvöðlar og einstaklingar með tengsl og félagslega stöðu hætta að búa á staðnum. Einkafjármagn vinnur gjarnan á grundvelli óformlegra persónulegra tengsla. Fjárfestar og fjármálastofnanir eru viljugri til að fjárfesta í eigin nærumhverfi. Þetta gerir enn ólíklegra að einkafjármagn komi til þegar efnahagsleg hnignun á sér stað.
Að drepa hugmynd með augnaráðinu einu saman
Það sem myndi hjálpa væri að sveitarstjórnir væru meðvitaðari um mikilvægi nýsköpunar. Ég hef upplifað það á eigin skinni og annars staðar, að fólk komi að lokuðum dyrum þar. Þá er ég ekki að tala um að sveitarfélögin séu að ausa peningum eða slíkt í verkefnum, en frumkvöðlar fara oft til sveitarfélaga og eru að viðra hugmyndir og þurfa samstarf við þá og það getur bara hjálpað að fá góða hlustun, það er hægt að drepa góðar hugmyndir bara með augnaráðinu einu saman. Þetta umhverfi, þetta klapplið sem frumkvöðullinn þarf, að koma inn þessu hugarfari.
— Frumkvöðull á Austurlandi.
Vágur í Færeyjum
Dæmi um hvernig „ósýnileg hönd“ markaðarins kemur í kjölfar handa hins opinbera er sú þróun sem átt hefur sér stað í bæjarfélaginu Vági í Færeyjum.
Vágur er bæjarfélag í Suðurey telur nú um 1400 íbúa. Suðurey er afskekktasta eyja Færeyja, en þangað eru ekki komin göng. Dennis Holm, fyrrverandi bæjarstjóri Vágs og núverandi sjávarútvegsráðherra í Færeyjum, lýsti hruni og í kjölfar umbreytingu frá sjónarhóli sveitarfélagsins í fyrirlestri 2022.
Myndband: Dennis Holm
Dennis Holm fyrrverandi bæjarstjóri um umbreytingar í Vági og þátt sveitarfélagsins í þeim í kjölfar hruns í sjávarútvegi.
Á fyrstu áratugum 20. aldar var sjávarútvegur í Vági einn af drifkröftum færeysks efnahagslífs. Þegar komið var fram á 21. öld hafði þó hallað undan fæti um langt skeið. Árið 2010 störfuðu enn kringum 260 manns við veiðar og vinnslu í bænum, en aðeins 7 árum síðar voru þeir komnir niður í 10-15, og þar með hafði uppistaðan í efnahagslífi staðarins nær algjörlega horfið.
Dennis lýsir því að vandinn hafi ekki aðeins verið efnahagslegur. Eftir áratugi af neikvæðum fréttum sem bárust linnulaust frá staðnum hafi sjálfsmynd margra íbúa verið orðin neikvæð. Upplifun þeirra hafi verið að ungt fólk sem sækti sér menntun annars staðar væri hreinleiga að „flýja“ frá staðnum.
Ný bæjarstjórn, sem Dennis var bæjarstjóri fyrir tók við 2013 og var strax hafist handa við að vinna að jákvæðara viðhorfi. Ásýnd staðarins var bætt og ýmsum verkefnum var hrundið af stað til að styrkja tengsl samfélagsins, meðal annars undir slagorðinu „sköpum góðar minningar“. Sveitarfélagið réðst markvisst í að senda vikulega fréttatilkynningar með jákvæðum fréttum af staðnum.
Með samstöðu íbúa að vopni var ráðist í ýmis metnaðarfull verkefn, s.s. byggingu fyrstu 50 metra sundlaugar í Færeyjum til heiðurs Páli Joensen sundkappa frá staðnum sem hafði gert garðinn frægan á stórmótum erlendis. Þá var settur af stað fyrsti íþróttalýðháskóli færeyja og ráðist í ýmsar fjárfestingar til að styðja við íþróttastarf. Auk þess að styrkja innviði fyrir ferðamenn var komið á fót hátíðum og íþróttamótum sem löðuð að sér gesti. Sett var upp miðstöð fyrir fjarnám, og á undanförnum árum tók sveitarfélagið þátt í ýmsum nýstárlegum verkefnum í alþjóðlegri samvinnu, s.s. uppsetningu samvinnurýmis, að laða til sín stafræna flakkara og skipulagðri dvöl (residency) fyrir utanaðkomandi.
Meðvitað og ómeðvitað þokuðast samfélagið í átt að efnahagslegum vexti sem byggði á upplifunum, ferðamennsku, íþróttum og ævintýramennsku. Árið 2022 hefur íbúum í Vági fjölgað um nær 5% frá 2013, þrátt fyrir hið mikla hrun sem átti sér stað á sama tíma í sjávarútvegi. Gistiplássum á staðnum fjölgaði um 485% á 7 árum.
Þó það átak sem leiddi af sér þessa þróun hefði ekki verið mögulegt nema með virkum stuðningi og þátttöku íbúanna sjálfra, hafi þessi nýja stefna samfélagsins þó verið langt frá því verið óumdeild. Margir íbúar hafi aðeins sé tækifæri í því að snúa aftur til sjávarútvegsins, sem hafi verið uppistaðan svo lengi.
Nýlega hafi einkaaðilar svo tekið við sér og hafið að fjárfesta í ferðamennsku: Kaffihús, veitingastaðir, gistiheimili og ævintýraferðaskrifstofa orðið til.
Dæmið frá Vági
Ekki er ætlunin að láta eina frásögn standa fyrir einhverskonar algildan sannleik. Frásögnin frá Vági getur þó nýst sem sýnidæmi. Annars vegar, að það tekur langan tíma frá því hafist er handa við að skapa nýjan veruleika í hnignandi samfélagi þar til mælanlegur árangur fer að sjást. Þegar um er að ræða grundvallar nýsköpun getur krafan um endanlegan áþreifanlegan strax verið til þess að drepa niður frumkvæði.
Hinsvegar, að til þess að skapa nýjar forsendur fyrir efnahagslegum vexti þarf oft að ráðast í fjárfestingar á breiðum samfélagslegum grundvelli. Ólíklegt er að einkafjármagn, sem þurfi að sjá viðskiptalegar forsendur fyrir fjárfestingu sinni verði leiðandi undir svona kringumstæðum. Þess er þó að vænta á hinum enda umbreytingarinnar, þegar hyllir í land.
Að lokum, að þegar samfélög standa frammi fyrir hnignun sem verður að tilvistarlegir ógn, þarf skapandi forystu sem er tilbúin til að leita nýrra leiða og takast á við óvissu. Þegar jafnvægi ríkir kann að vera að það nægi stofnunum samfélagsins að sjá einfaldlega fyrir ákveðinni þjónustu og leggja metnað sinn í að gera það á sem hagkvæmastan og skilvirkastan hátt. Að leiða umbreytingu útheimtir hins vegar allt önnur vettlingatök og hugarfar. Að því sögðu, þá stendur tíminn aldrei í stað. Hvort sem er samfélög eða fyrirtæki útsetja sig fyrir þeirri áhættu að ytri aðstæður skáki þeim út leik ef þau eru ekki á tánum að leita skapandi leiða til að takast á við óvissu.