Skip to content

Vistkerfi nýsköpunar

Nýsköpun er nýstárleg leið til þess að skapa verðmæti. En hvernig fer hún fram? Eins og rætt var í kaflanum Hvað er nýsköpun? er óvissa helsta einkenni nýsköpunar. Þetta skapar alveg sérstaka þverstæðu þegar gera á áætlanir og ramma utan um eflingu nýsköpunar. Hvernig er hægt að plana óvissu?

Að sama skapi mætti spyrja, hver er uppskriftin að nýsköpun? Hver eru hráefnin og fyrirmælin sem þarf að fylgja til þess að nýsköpun eigi sér stað? Hver er ástæða þess að nýsköpun dafnar á einum stað og tíma, en ekki öðrum? Er á annað borð hægt að hafa áhrif á það að nýsköpun eigi sér stað? Er betra að horfa á nýsköpun á sviði hverrar einingar fyrri sig, s.s. á það fyrirtæki sem er að stunda nýsköpunar, eða gerist hún sem hluti af stærra kerfi. Er þetta kerfi bundið við landssvæði, þjóðlönd, ólíka geira, eða kannski alþjóðlegt?

Frægt líkan sem reynir að svara þessum spurningum á uppruna sinn frá 10. áratugnum, og er hið svokallaða þriggja sviða líkan háskóla, iðnaðar og yfirvalda. Það gerir ráð fyrir að nýsköpun spretti í samskiptum þessara sviða. Háskólar eru uppspretta nýrrar þekkingar, en þessi þekking verður ekki hagnýtanleg og þar með verðmætaskapandi fyrr en iðnaðurinn kemur henni á markað. Yfirvöld eru svo nauðsynleg til þess að skapa ramma og innviði.

Þriggja sviða líkanið

Þriggja sviða líkanið

Þriggja sviða líkanið gerir ráð fyrir að nýsköpun sé afleiðing af aðstæðum sem þurfi að vera til staðar, ekki ferli sem gæti átt sér stað í einangrun. Þetta líkan boðar ekki endilega góðar fréttir fyrir dreifðar byggðir, þar sem bæði stofnanir hins opinbera og háskólasamfélagið eiga til að þjappast saman á stærstu stöðum hvers lands.

Eins og títt er um líkön hafa svo kennismiðir bætt við nýjum sviðum sem teljast mikilvæg fyrir nýsköpun til þess að gera það nákvæmara en jafnframt flóknara.

Líkt og kerfi náttúrunnar?

Í dag er algengt að tala um þær aðstæður sem nýsköpun sé sprottin af sem „vistkerfi“. Líkt og á við um náttúruleg vistkerfi eins og í sjónum fyrir utan Ísland, getum við ef til vill skilið verkan þess í megin dráttum, en munum aldrei geta spáð nákvæmlega um þróun þess. Að sama skapi getur verið varasamt að ætla sér að gera stórtækar og hraðar breytingar á vistkerfum, það getur haft ófyrirséðar og alvarlegar afleiðingar eins og umgengni mannsins við náttúruna hefur sýnt.

Oft eru þær aðstæður sem leiða til nýsköpunar myndhverfðar sem vistkerfi nýsköpunar. Vistkerfi náttúrunnar eru staðbundin kerfi þar sem dýr, plöntur, veðurfar og landslag hafa áhrif á hvort annað. Vistkerfi eru margslungin. Breyting á einum þætti þess hefur gjarnan áhrif á alla aðra, og þau verða fyrir áhrifum af bæði ytri og innri þróun.

Vistkerfi nýsköpunar samanstendur að sama skapi af samverkan fjölmargra ólíkra þátta. Ýmislegt getur talist til þessa vistkerfisins. Frumkvöðlar, sprotafyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki eru oft skilgreind í einhvers konar miðju. Hefðbundið er að telja með þekkingarstofnanir s.s. háskóla og rannsóknarstofur. Fjárfestar og styrktarsjóðir leika sitt hlutverk. Þá er oft til staðar einhvers konar skipulagt stuðningskerfi, s.s. nýsköpunarmiðstöðvar og hraðlar. Hið opinbera, bæði á landsvísu og svæðisbundið, er svo yfirleitt einhvers konar þátttakandi í spilinu.

Það sem vísunin í hið náttúrulega vistkerfi leggur áherslu á, er að það umhverfi sem nýsköpun sprettur upp úr er ekki einföld mekaník sem hægt er að skilja til hlítar eða stjórna með handafli. Hægt er að hafa áhrif á vistkerfi með inngripum í það, en við höfum sjaldan fulla stjórn á því. Þegar breytingar á því verða getur jafnframt reynst erfitt að segja til um það á nákvæman og óyggjandi hátt hvers vegna það gerðist.

Það verður því að nálgast það verkefni að hafa áhrif á vistkerfi, hvort sem er vistkerfi nýsköpunar eða náttúrunnar, með ákveðinni auðmýkt og langtíma hugarfari. Aðferðir líkt og handstýring að ofan eru ólíklegar til árangurs.