Sprotasamfélög
Nálgunin sprotasamfélög leggur áherslu á lárétt tengsl milli frumkvöðlana sjálfra. Að það kerfi sem nýsköpun spretti upp úr sé netverk, sem ekki sé stýrt að ofan. Mestu skipti máli að frumkvöðlarnir sjálfir séu leiðandi, og hvernig samskipti þeirra á milli séu.
Ég er að leita að fólki í mínu nærumhverfi sem komplimentar mig og hefur svona skörun við mig. Það mætti vera einhver vettvangur þar sem ég gæti séð á auðveldan hátt hverjir eru að vinna í einhverjum hlutum, sem tengjast í mínu tilfelli sjó og hafa áhuga á að vinna með þörunga ...
Eitthvað svona platform þar sem þú gætir á litlum tíma vitað soldið hvað er, ég held að það sem skiptir gríðarlegu máli er samstarf.
— Frumkvöðull á Vesturlandi
"Startup communities"
Bandaríski fjárfestirinn og Íslandsvinurinn Brad Feld hefur mikið fjallað um nýsköpunarvistkerfi og frumkvöðlasamfélög. Sjálfur er hann þekktur fyrir þátttöku sína í nýsköpunarsenunni í borginni Boulder í Colorado fylki. Boulder telur aðeins um 100 þúsund manns, en hefur vakið athygli fyrir óvenju gróskumikið nýsköpunarlíf.
Feld lýsir nýsköpunarvistkerfum sem margslungnum og sjálfaðlaðandi kerfum. Alls ekki eigi að reyna að handstýra þeim að ofan, heldur leyfa frumkvöðlum sjálfum að leiða veginn. Í bókinni The Startup Community Way, sem Feld skrifar ásamt Ian Hathaway, er harmað að:
Stjórnvöld og aðrir aðilar, s.s. stærri fyrirtæki og háskólar, eru ekki að vinna saman með hvor öðrum eða með frumkvöðlum eins vel og þau gætu. Of oft reyna þessir aðilar að stýra eða troða sínum sjónarmiðum að ofan, í stað þess að styðja við umhverfi sem er leitt frá grasrótinni, aðallega af frumkvöðlum[1].
Vandinn samkvæmt Feld og Hathaway er að frumkvöðlum sé eiginleg ákveðin afstaða, hegðun og gildi sem einkenni lífleg sprotasamfélög, en þau séu þau oft í mótsögn við það sem fólki úr stofnunum sé eiginlegt. Sprotasamfélög þrífast fyrst og fremst sem netverk, meðan stórfyrirtæki, háskólar og stjórnvöld séu í stigveldi[2].
Ákall Feld um að það séu frumkvöðlar sjálfir sem leiði eigið samfélag er sannfærandi en í senn ekki einfalt að uppfylla. Það setur þá sem starfa sem fagfólk í stuðningskerfi nýsköpunar ákveðna áskorun, s.s. starfsfólk landshlutasamtaka eða hinna ýmsu eininga sem settar hafa verið upp til að styðja við nýsköpun. Á mörgum stöðum eru ekki sérstaklega margir virkir frumkvöðlar, og þeir hafa oft margt annað og betra að gera en að mæta á stefnumótunarfundi eða vinnustofur tengd nýsköpun, svo dæmi sé tekið.
Í anda Feld ættu þeir sem veljast í það erfiða hlutverk að styðja við samfélag nýsköpunar að líta á sitt hlutverk sem að vera hvetjandi, tengja ólíka aðila saman, styðja við frumkvæði sem á sér stað og hlusta vel á frumkvöðlana sjálfa, og forðast að taka sér á hendur að segja öðrum fyrir, skipuleggja og setja ramma. Þessi verkefni kalla einnig á áleitnar spurningar um hvers konar stofnanir best séu fallnar til að styðja við nýsköpunarsamfélög.
Innan ákveðinna stofnana, s.s. landshlutasamtaka, opinberra stofnana s.s. Byggðastofnunar, hjá ráðuneytum tíðkast vinnubrögð og menning sem hæfa slíkum stöðum. Það sem kalla mætti vandaða stjórnsýsluhætti útheimtir oft á tíðum ákveðna formfestu og fyrirsjáanleika. Leita þarf samþykkis hjá réttum stöðum, færa þarf skýr rök fyrir ákvarðanatöku, leitast þarf við að styggja ekki mikilvæga hagsmunaaðila o.s.frv.
Þetta andrúmsloft, sem oft á tíðum er nauðsynlegt innan þeirra stofnana sem það kemur frá, getur verið hindrun í uppbyggingu frumkvöðlaumhverfis. Nýsköpun þrífst þar sem fólk er óhrætt við að gera tilraunir, í andrúmslofti hispursleysis og þar sem ekki þarf að leita samþykkis fyrir öllu eða fara gegnum langa formlega ferla. Skapandi samfélög þurfa frelsi til að gera eitthvað sem öðrum kann að þykja ansalegt eða fáránlegt, jafnvel hneikslanlegt. Aðgengi að þátttöku þarf að vera án þröskulda, og hlutverk og ábyrgð einstaklinga verður oft flæðandi og dýnamísk.
Það getur verið mjög mikil áskorun fyrir starfsmann sem ætlað er að vera þátttakandi í sprotasamfélagi á láréttum jafningjagrundvelli, að vera jafnframt hluti af lóðréttri og formfastri stofnun. Hættan er að menning og siðir stofnunarinnar taki yfir. Það kann því að vera gott skref að aðskilja einingu sem ætlað er að styðja við nýsköpun til þess að gefa þeim ákveðið frelsi og sjálfstæði. Vinnurými þeirra ætti helst að staðsetja þar sem frumkvöðlar hafa aðsetur, eða a.m.k. í rýmum sem hafa möguleika á að laða til sín frumkvöðla, og síður innan um stjórnsýsluleg skrifstofuveldi.
Reynsla af því að spóla á gólfinu
Varðandi atvinnuráðgjafa og þess háttar. Mér líður betur með að hitta einhvern sem hefur reynsluna. Maður fær aðeins meira traust á þeim. Reynslu úr frumkvöðlaumhverfinu, sem hefur aðeins fengið að spóla á gólfinu.
Atvinnuráðgjafarnir mega ekki vera fastir í boxi. Eins og í skýrsluskrifunum. Auðvitað þarf að skila lokaskýrslum og þess háttar [...] en að festa sig ekki þar, að við missum ekki af góðu fólki af því það er bara ekki í Excellinu.
— Frumkvöðull á Norðurlandi
Frá Seyðisfirði
Er einhver uppskrift?
Sum samfélög virðast búa yfir sköpunarkrafti, opnum hug og vilja til að gera tilraunir. En er einhver uppskrift að því hvernig hægt sé að laða slíkt fram á ákveðnum stöðum? Þessari spurningu svaraði Aðalheiður Borgþórsdóttir frá Seyðisfirði þannig, í málstofu undir yfirskriftinni Hvernig geta skapandi samfélög stutt við nýsköpun í dreifðum byggðum?
Að mínu mati þarf fyrst og síðast að laða til sín skapandi ævintýrafólk, virka grasrót! Listafólk, handverksfólk, skipulagsfólk, tilíallt fólk, það þarf hugsjónir, hugmyndir, þolinmæði, kjark, þrautsegju, forvitni, aðstöðu, aktívista, örlæti og gott bakland.
Hægt er að horfa á allan fyrirlestur Aðalheiðar hér:
Feld, Brad; Hathaway, Ian. The Startup Community Way (Techstars) (p. 2). Wiley. Kindle Edition. ↩︎
"While the attitudes, behaviors, practices, and values at the heart of vibrant startup communities are second nature to many entrepreneurs, they often are counterintuitive or misaligned with competing incentives, especially when the person represents an organization such as a large corporation, university, or government. These institutions, which are hierarchical organizations, operate in ways that are antithetical to startup communities, which, like entrepreneurial companies, thrive in a network model" Feld, Brad; Hathaway, Ian. The Startup Community Way (Techstars) (pp. 7-8). Wiley. Kindle Edition. ↩︎