Skip to content

Líðan frumkvöðla úti á landi

„Fólkið sem gerir hlutina er rosalega oft sama fólkið. Ég er að reka mitt fyrirtæki, ég er líka að reka fjögur tjaldsvæði. Ég er líka að reka félagsheimili og ég er líka í sveitarstjórnarmálum. [Jón] hann er að gera marga hluti, hann er að byggja hús, hann er að reka verslun, [Gunna] er líka svoleiðis típa.

Ég held að það sé soldið kjarninn. Það sem sveitarfélög, atvinnuþróunarfélög, allt stuðningskerfið þarf að gera, er að hlúa vel að fólki. Það þarf að hlúa að þessum einstaklingum, vegna þess að svona einstaklingar inni í samfélagi eru gríðarlega verðmætir.“

— Frumkvöðull á Norðurlandi

Ferðalag frumkvöðulsins getur tekið á. Glýma einstaklingsins við stórar áskoranir er oft sögð eftir á sem rósrauð saga, oft sem hetjusögur um einstakaklinga sem voru í fámennum hópi þeirra sem tókst ætlunarverkið og uppskáru frægð og frama.

En fyrir flesta einstaklinga sem leggja af stað í þá vegferð að hrinda af stað eigin hugmynd, verður afraksturinn ekki eins og hjá þeim fáu útvöldu sem mest er fjallað um eftir á. Margir þurfa að gefast upp, og jafnvel hjá þeim sem ná einhverskonar árangri að lokum, þarf oft að ganga í gegnum tímabil óvissu og efasemda um hvort leiðin sé rétt. Hvenær er kominn tími til að gefast upp, segja þetta gott, dæma hugmyndina sem full reynda? Hverju er ég tilbúin(n) að fórna til að láta á það reyna? Flestir frumkvöðlar þurfa að spyrja sig slíkra spurninga við hverja mislukkaða tilraun.

Þar sem nýsköpun fæst við eitthvað sem er nýstárlegt, er hægt að gefa sér að það sé ekki alltaf fullur skilningur á þeirri hugmynd sem byggir að baki verkefninu. Ef allir myndu "fatta" hygmyndina og ef hún gengi upp, þá væri enda líklega einhver löngu búinn að framkvæma hana. Þetta skilningsleysi nærumhverfisins, jafnvel í verstu tilfellum baknag og háð, getur tekið á.

Þá er mjög algengt að frumkvöðullinn fjárfesti sjálfur í eigin verkefni, sérstaklega á fyrstu stigum. Þetta getur verið í formi eigin fjármuna, eða algengara, í formi ólaunaðs vinnuframlags. Með þessu móti setur frumkvöðullinn oft eigin persónulegar þarfir dagsins í dag fram yfir mögulegan árangur í framtíðinni, sem allt eins víst er að ekkert verði úr. Oft verður nafn frumkvöðulsins og persóna samtvinnuð verkefninu sem hann fæst við, sem gerir verkefnið enn persónulegra og erfiðara að glýma við mistök og ósigra.

Manneskjur sem búa við að ganga að mánaðarlegum launum nokkurnvegin vísum, vinna starf sem nærumhverfi þess hefur skilning á og þarf ekki að efast um eigin stefnu og tilveru á hverri stundu, þurfa að hafa mikla hæfni til samkenndar til þess að geta sett sig í spor frumkvöðla.

Atygli og væntingar

Skortur á skilningi og stuðningi nærumhverfis getur verið erfitt að takast á við, en þetta á sér aðra hlið sem er ekki síður snúin. Þegar frumkvöðlar fara af stað með hugmynd sem kveikir í ímyndunarafli fá þeir oft snemma athygli í fjölmiðlum. Frumkvöðlar vinna kannski til verðlauna, komast í áfram í mikilvæga hraðla, en fá jafnvel styrki og fjárfestingar.

Að utan kann að líta úr eins og þeir séu búnir að "meika það", og það er skiljanlegt að frumkvöðlar vilji ekki gera lítið úr eigin velgengni og tali frekar verkefnið upp en öfugt. En þó áhugi og viðurkenning ytri aðila kunni að þjóna mikilvægu hlutverki, getur verið langur vegur á milli þess og að hugmynd verkefnisins gangi upp, s.s. með sjálfbærum rekstri eða að tæknileg úrlausnarefni hafi náðst.

Á milli "hæpsins" og raunverulegrar stöðu getur myndast gjá sem verður sífellt erfiðara að brúa. Það er ekki siður óþæginlegt að þurfa að uppfylla óraunhæfar væntingar en að standa frammi fyrir efasemdum og vantrú. Þá getur orðið freystandi að einbeita sér að því að taka þátt í allskonar keppnum, senda út fréttatilkynningar og búa til hin og þessi stöntin til þess að halda athyglinni.

Stundum getur þörfin fyrir því að viðhalda ytri viðurkenningu farið að taka tíma og orku frá því að vinna að kjarna hugmyndarinnar og mikilvægari langtíma verkefnum.

Sérstakt álag á smærri stöðum

Í mörgum tilfellum er það álag sem frumkvöðlar á smærri stöðum standa frammi fyrir sérstakt. Margt drífandi og skapandi fólk, sem lætur til sín taka í litlum samfélögum, þekkir það að verða fljótt hlaðið verkefnum. Tilfinnninunni er oft lýst með því að hafa rétt litla fingur og misst alla höndina. Þörfin sem smáir staðir hafa fyrir fólk sem er tilbúið að láta til sín taka virðist stundum endalaus, og boltarnir takast á loft.

Að bregðast sínu fólki

Ástæðan fyrir því að drífandi fólk tekur að sér sífellt fleiri verkefni á litlum stöðum er yfirleitt sú að því rennur blóð til skildunnar. Ábyrgð einstaklingsins verður áþreifanlegri á litlum stað þar sem færri eru um að taka að sér öll hlutverkin. Nálægð samfélagsins getur einnig breytt ábyrgðartilfinningunna. Með því að taka ekki að sér mikilvæg verkefni er einstaklingurinn að bregðast vinum, fjölskyldu og nágrönnum, á meðan að hægt er að kúpla sig út úr þáttöku á fjölmennum stað án þess að nokkur taki eftir því.

Þessi ábyrgð gagnvart samfélaginu getur sett alveg sérstaka pressu á frumkvöðla á smærri stöðum. Það er eitt að mistakast sjálfum, og annað að bregðast sinni heimabyggð. Þegar verkefni ganga ekki upp geta einstaklingar misst vinnuna, jafnvel tapað fjárfestingu eða einfaldlega orðið vonsviknir. Þetta verður enn erfiðara þegar nálægð er mikil milli einstaklinga.

Athyglin og umtalið sem frumkvöðull á smærri stað verður fyrir getur jafnframt búið til þrúgandi pressu að standa sig, meðan auðveldara er að verða nafnlaus í stærri samfélögum. Þetta er eitt af því sem unnið er með í Klúðurkvöldum sem er ein af uppskriftunum sem farið er yfir síðar.

Loks geta frumkvöðlar á smærri stöðum upplifað sig einangraða miðað við í borginni. Í stórum samfélögum er auðveldara að leita uppi aðra frumkvöðla sem eru að ganga í gegnum svipaða reynslu, eða hafa gert það áður. Í því getur verið mikill stuðningur og speglun.

Stuðningur við frumkvöðla getur verið andlegur, jafnt sem fjárhagslegur eða með beinum ráðum. Oft er hvatning, skilningur og viðurkenning ekki síður mikilvæg. Stuðningur við frumkvöðla getur falist í því að hvetja þá til að láta hendur standa fram úr ermum, standa í stafni og stíga áfram ölduna. En það getur verið allt eins mikilvægt að hvetja þá til að huga að eigin þörfum og ástvina sinna, og jafnvel þegar svo ber undir, finna út úr því hversu miklu þeir vilji fjárfesta í verkefni sínu.

Á ákveðnum tímapunkti þarf stundum að láta gott heita, sætta sig við að ákveðin leið sé full reynd og opna hugan fyrir nýjum nálgunum. Að styðja frumkvöðla gegnum slíkar ákvarðanir, sem þeir verða að sjálfsögðu að fá að komast að sjálfir, útheimtir mikla álúð og samkennd, sem erfitt er að búa yfir nema hafa staðið í svipuðum sporum sjálfur.

Þar búa þeir sem hafa sjalfir verið í sporum frumkvöðulsins yfir dýrmætri reynslu innan stoðkerfisins.

Í viðtölum við frumkvöðla úti á landi lýsti einn þeirra jákvæðum samskiptum við atvinnuráðgjafa svo:

Hún er frábær í að vera klapplið. Hún hringdi bara stundum í mig og sagði bara: „Hvernig gengur, djöfull er ég ánægð með þig, ertu komin með fjárfesta? Geggjað“.

Þetta er svo dýrmætt. Ég fór í hraðal og var með kynningu og hún mætti. Hún þurfti ekkert að mæta, hún þurfti ekkert að fara til Reykjavíkur til að mæta, en hún mætti bara til þess að klappa mér á bakinu. Mér finnst þetta rosalega dýrmætt, að það sé einhver í klappliðinu. Sérstaklega á svona stöðum þar sem er ekkert svona umhverfi nýsköpunar til að styðja við. En ég myndi vilja sjá það, sjá einhvern svona stað. Af því að þetta kaffispjall, stuðningur bara svona persónulegur hver við annan, skiptir svo miklu máli