Skip to content

Formáli

Í þessari heimild er ætlunin að taka saman hugmyndir, kenningar, frásagnir og skoðanir sem geta nýst þeim sem hafa áhuga á að efla nýsköpun í dreifðum byggðum. Vonast er til að efnið sé hagnýtt fyrir frumkvöðla, fólk sem vinnur í stuðningsumhverfi og stefnumótun tengd nýsköpun sem og alla þá sem hafa áhuga á að vera þátttakendur í vistkerfi nýsköpunar í íslenskum landsbyggðum.

Hægt er að lesa þessa síðu frá upphafi til enda í réttri röð, eða hoppa á milli ólíkra kafla eftir áhuga hvers lesanda. Til vinstri er yfirlit yfir kafla ritsins, og til hægri er hægt að sjá yfirlit yfir efni hvers kafla.

Lifandi skjal

Þessi heimild er í stöðugri vinnslu. Sumir hlutar hennar eru enn hráir. Ábendingar, hugleiðingar eða athugasemdir eru vel þegnar og má senda á arnar@eastofmoon.com

Formúlur fyrir nýsköpun?

Það yrði ekki farsælt að gera nákvæmar formúlur og fyrirmæli um hvernig styðja skuli við fyrirbæri sem er eins margslungið og nýsköpun. Tilgangurinn hér er engu að síður að draga saman hagnýtar aðferðir og hugmyndir sem hægt er að leggja út af sem byrjunarpunkt. Markmiðið með þessu riti er að sama skapi ekki að búa til fræðilega samantekt, en að benda þó á hugmyndastrauma sem móta viðhorf okkar til nýsköpunar.

Án þess að vera meðvituð um þær aðferðir sem notaðar hafa verið áður, er okkur hætt að finna í sífellu upp hjólið. Og án þess að vera meðvituð um þær hugmyndir sem byggja að baki þeim aðferðum sem við nýtum er hætt við að við grípum einfaldlega þau tískuorð og frasa sem hæst ber á hverju sinni umhugsunarlaust. Vonast er til þess að þetta rit verði til þess að dýpka umræðuna um hvernig við mótum og þróum vistkerfi nýsköpunar saman.

Ólíkar forsendur nýsköpunar

Einn af hvötunum baki þessari samantekt er sú ályktun, að þær aðferðir sem þróaðar hafa verið til þess að styðja við nýsköpun séu að mestu miðaðar við aðstæður í borgum, og þurfi að aðlaga, eða jafnvel enduruppgötva á forsendum dreifðra byggða.

Jafnframt, að grundvallarspurningum um eðli og tilgang nýsköpunar, eða hugtaka líkt og “nýstárlegt” og "verðmætasköpunar" sé sjaldan velt upp, en skipti þó miklu máli í hvernig við nálgumst viðfangsefnið nýsköpun, í hvaða átt við ræktum vistkerfi hennar og beitum henni til hagsbóta fyrir samfélagið.

Við ættum ekki aðeins að spyrja hversu mikil nýsköpun sé, eða hröð, heldur hvað sé verið að skapa með henni, í hvaða átt það sé að þoka okkur sem samfélag, og á forsendum hverra það sé. Það skiptir ekki bara máli að stuðla að nýsköpun, heldur ekki síður í hvaða átt hún leiði okkur.

Fyrir hvern

Þessi heimild er ætluð öllum þeim sem hafa áhuga á að styðja við nýsköpun í dreifðum byggðum. Það geta verið frumkvöðlar, sem vilja efla það nærsamfélag sem þeir starfa í. Þá geta starfsmenn hinna ýmsu "battería" sem taka að sér að styðja við nýsköpun, s.s. landshlutasamtaka eða ýmissa miðstöðva og eininga sem taka sér það fyrir hendur. Stjórnmálamenn og fólk sem vinnur að stefnumótun um nýsköpun gætu mögulega fundið hér innblástur, sem og fræðifólk og nemendur sem vilja skilja fyrirbærið betur.

Hvernig þessi heimild varð til

Vistkerfavinnustofa á Rifi

Þetta rit er einn af afrakstrinum og áframhaldi af verkefefninu Að rækta vistkerfi nýsköpunar í dreifðum byggðum sem stutt var af sjóðnum Markáætlun um samfélagslegar áskoranir árið 2021. Verkefnið var skapandi ferli sem leiddi saman formlegar rannsóknir og kannanir á vistkerfi nýsköpunar í dreifðum byggðum, sem og samsköpun með frumkvöðlum og þátttakendum í stuðningskerfi nýsköpunar í íslenskum landsbyggðum.

Um 120 manns víðsvegar af landinu tóku þátt í vistkerfavinnustofum sem nýttar voru til að þróa áfram hagnýtar leiðir til að styðja við nýsköpun í dreifðum byggðum. Þá voru formlegar rannsóknir gerðar og kannanir á stöðu vistkerfis nýsköpunar úti á landi. Allir þessir þættir hafa nýst við að móta þessa heimild. Þó skal árétta að heimildin er ekki bein endurspeglun af niðurstöðum annarra verkþátta verkefnisins. Það sem hér birtist endurspeglar túlkanir og viðhorf ritstjóra þess, Arnars Sigurðssona, og ætti ekki að skilja sem "skýrslu" af niðurstöðum þesss sem á unan hefur farið heldur heldur sjálfstætt innlegg.