Skip to content

Nýsköpunarhemill

Um þessa uppskrift

Hemillinn sem er innblástur þessarar uppskriftar var settur af stað af Blábankanum á Þingeyri árið 2019. Hugmyndin um “innovation decelerator” hafði þó komið fram allavega árið 2014[1] og sett af stað í Menorca á Spáni árið 2015[2] þó sú útfærsla sé líklega ólík þeirri sem hér er lýst.

Nýsköpunarhemill (e. decelerator) er útúrsnúningur úr hugtakinu nýsköpunarhraðall (e. accelerator). Markmið viðburðarins er að stefna frumkvöðlum saman yfir afmarkað tímabil og fá þá til að koma verkefninu sínu áfram með því að hægja á ferlinu og kúppla sig út úr daglegu amstri.

Hraðlar

Ólíkt nýsköpunarhemlum eru nýsköpunarhraðlar mjög vel þekktir í nýsköpunargeiranum. Frægar fyrirmyndir frá Bandaríkjunum, líkt og Y-Combinator or Techstars hafa breitt út það líkan um allan heim. Útfærsla nýsköpunarhraðla er fjölbreyttg, en eins og nafnið bendir til er tilgangurinn iðulega að hraða ferli einhvers fyrirtækis eða verkefnis, til dæmis sprotafyrirtækis. Hraðlar fara yfirleitt fram yfir ákveðið tímabil, t.d. nokkra mánuði eða vikur. Oftast felst einhverskonar dagskrá og handleiðsla í ferlinu, þar sem frumkvöðlar fá stuðning við að komast á næsta stig í sínu ferli, m.a. með aðgengi að reynsluboltum sem gefa góð ráð í ferlið. Oft felst einhverskonar fjármögnun í því að vera samþykktur inn í nýsköpunarhraðall, s.s. hlutafé eða styrkur.

… snúið á haus

Hemillinn, líkt og sá sem Blábankinn kom af stað, leggur upp með að hægja á, frekar en hraða, nýsköpunarferlinu. Þetta má skilja á nokkra vegu. Annars vegar, að það geti verið mikilvægara fyrir hið skapandi ferli að taka sér meiri tíma, hugsa um færra á hverjum tíma og ætla sér ekki of mikið í einu. Hins vegar, að sú ofuráhersla á hraðan vöxt umfram allt annað sem einkennir menningu okkar og efnahagskerfi, sé ekki endilega æskileg fyrir samfélagið og náttúruna. Þvert á móti þurfi að huga betur að eigin velferð og samferðamanna, og staldra við og aðgæta áhrif á náttúruna.

Með þessu móti er verið að skapa sérstöðu gagnvart öllum þeim ógrynni af hröðlum sem til eru, og að einhverju leyti byggja á þeirri ímynd sem strjálbýli hefur gagnvart borgum. Að halda nýsköpunarhraðal í afskekktum byggðum fjarri helstu miðstöðvum nýsköpunar verður alltaf meiri áskorun að framkvæma en í borgum. Með því að halda hemil getur fjarlægðin, fámennið, nálægð við náttúruna og annars konar samfélagsgerð verið snúið upp í styrk frekar en veikleika. Þátttakendur annars staðar að fá tækifæri til að stíga inn í öðruvísi umhverfi og forsendur.

Hemillinn er haldinn yfir nokkurra vikna skeið, og þegar hann er haldinn í afskekktum og fámennum byggðum er tilvalið er að stefna að blöndu frumkvöðla úr nærumhverfinu og annara staðar frá. Bæði getur verið erfitt að finna nægilega marga þátttakendur staðbundið, en svo geta utanaðkomandi þátttakendur einnig auðgað upplifunina fyrir öllum þátttakendum.

Oft hika aðilar út stuðningsumhverfi nýsköpunar við að eyða púðri í að styðja við frumkvöðla utan síns starfssvæðis. Það kann þó að vera klókt. Með því að laða að frumkvöðla annars staðar frá, þó ekki sé nema í stutta stund, er verið að hvetja til tengslamyndunar og þekkingaryfirfærslu milli heimamanna og utanaðkomandi. Þá getur nærvera og heimsóknir frumkvöðla allstaðar að úr heiminum verið hluti af því að byggja upp ímynd og orðspor svæðisins sem áhugaverðan og spennandi stað fyrir nýsköpun.

Dagskrá og innihald

Í grunninn felst nýsköpunarheimillinn í dvöl í einhverri byggð eða svæði úti á landi þar sem þátttakendur geta unnið að frumkvöðlaverkefnum sínum á öðrum forsendum, nýjum kringumstæðum og vonandi af annarri meðvitund en dags daglega. Tilvalið er að hvetja þátttakendur til að einbeita sér að því sem er mikilvægt, ekki bara því sem er áríðandi. Að nota tímann í hemlinum til að kúpla sig út úr amstri hversdagsins og þeirri síbilju tölvupósta, funda og annars áreitis sem oft birgir okkur sýn á stóru myndina.

Upplagt er að hafa einhverja dagskrá, s.s. fyrirlestra frá frumkvöðlum og öðrum reynsluboltum, ferðalög um náttúruna og einhverskonar samvistir og heimsóknir innan svæðisins. Mikilvægt er þó að ofgera ekki formlegu skipulagi, enda vinnur það gegn markmiðum þess að hægja á og gefa þátttakendum eigið rými. Sameiginlegar máltíðir, sund- og gönguferðir, til dæmis, gæti verið nóg til að hrista hópinn samann og fá þátttakendur til að kynnast á einlægan hátt.

Stuðningur

Líkt og áður sagði fylgir helstu nýsköpunarhröðlunum gjarnan fjárfesting. Það gæti verið áskorun að koma slíku í kring í samhengi við hemil, enda er ákveðin eðlislæg tengsl milli fjárfestingafjármagns og væntingum um hraðan efnahagslegan vöxt. Það kann þó ekki að vera nauðsynlegt að bjóða fjármagn til að laða að áhugaverða frumkvöðla. Annarskonar stuðningur, s.s. að bjóða upp á gistingu og vinnuaðstöðu, gæti jafnvel dugað.

Undirbúningur

Nýsköpunarhemil þarf að skipuleggja og kynna með góðum fyrirvara, sérstaklega ef utanaðkomandi aðila er vænst. Flestir þurfa minnst 3-4 mánaða fyrirvara til að vita hvort þeir hafa verið samþykktir inn til að taka frá og skipuleggja tíma fjarri heimahögum. Loks er æskilegt að nokkuð greinargóð hugmynd um skipulag og innihald viðburðarins liggi fyrir áður en væntanlegir þátttakendur sækja um.

Undirbúningstímabil gæti því litið svona út - “mánuðir”, vísa í mánuði fyrir upphaf hemilsins.

Tími til uppphafsVarða að undirbúningi
8 mánuðirFjármögnun og samstarfsaðilar tryggðir
7 mánuðirDagskrá og innihald mótað. Kynningaráætlun mótuð
6 mánuðirOpnað fyrir umsóknir: Dagskrá og umgjörð tilbúin í meginatriðum
4,5 mánuðirUmsóknarfrestur rennur út
4 mánuðirUmsækjendur fá boð um þátttöku
3,5 mánuðirÞátttakendur staðfesta þátttöku
0 mánuðirHemillin hefst

Hlutverk skipuleggjenda

Hlutverk skipuleggjenda, hvort sem það er uppfyllt af einni eða fleiri manneskjum, er þríþætt:

  • Að móta innihald og umgjörð viðburðarins, tryggja nauðsynlegt fjármagn og samstarfsaðila.
  • Að sjá um skipulag og framkvæmd á ferlinu.
  • Að slá rétta tóninn, skapa æskilegt andrúmsloft og laða fram það besta í þátttakendum.

Innihald og umgjörð

Í þessu felst að skapa hemlinum einhverskonar sérstöðu. Stundum er það gert með því að velja þema, annaðhvort einhverskonar í efnistökum nýsköpunarinnar eða í nálgun á hana. Hér gildir að vinna með eiginlega síns svæðis, jafnvel þá sem taldir eru til veikleika, án þess að festast í gömlum hjólförum og klissjum um staðinn.

Jafnframt þarf að tryggja fjármagn og samstarfsaðila. Oft fellur viðburður líkt og nýsköpunarhemill vel að stefnumörkun landshlutasamtaka, og því mögulegt að sækja í fjármögnun í opinbera sjóði. Þá sjá einkafyrirtæki oft hag sinn í að tengjast við nýsköpun og gætu verið líkleg til stuðnings.

Oft getur stuðningur falist í framlagi sem ekki er fjárhagslegt, s.s. að leggja til fyrirlesara eða leiðbeinendur (e. mentors), eða annað sem nýtist í dagskránna.

Skipulag og framkvæmd

Framkvæmd og skipulag felst í að fylgja eftir því sirka 8 mánaða ferli sem lýst var að ofan. Í upphafi þarf oft að leggjast í mikla vinnu við að kynna nýjan viðburð, sérstaklega þegar hann er haldinn fjarri miðju nýsköpunarsamfélagsins. Hér nýtast samfélagsmiðlar vel, en einnig getur verið sterkur leikur að leita til einstaklinga eða samtaka sem hafa aðgengi að netverki frumkvöðla til þess að koma skilaboðum áleiðis.

Ef mikið af þátttakendum og aðrir sem koma að dagskrá koma annars staðar frá þarf að skipuleggja ferðalög og dvöl þeirra. Í mörgum smærri stöðum er framboð af gistingu, vinnu- og fundaraðstöðu ekki eins mikið, sérstaklega þegar um stærri hópa er að ræða, og hér þarf því oft að beita frumlegum lausnum og útsjónarsemi.

Að slá tóninn

Stór hluti af verðmæti viðburðar líkt og nýsköpunarhemils felst ekki endilega í miðlun á upplýsingum, heldur því andrúmslofti og tengslum sem myndast hjá þátttakendum. Að hvetja til einlægni og opinskáleika meðal þátttakenda. Þetta þarf auðvitað að gera í samræmi við þema og andrúmsloft viðburðarins.

Að velja rétta þátttakendur fyrir þann viðburð sem verið að hanna er lykilatriði. Yfirleitt er nauðsynlegt að taka viðtöl við umsækjendur, hvort sem er í persónu eða gegnum netið, svo hægt sé að átta sig betur á viðhorfum þeirra, þörfum og væntingum.

Að stýra væntingum

Þá er mikilvægt að útskýra vel fyrir þátttakendum hvað felst í viðburðinum og dagskránni svo ekki komi upp misskilningur. Ef t.d. er ætlast er til að þátttakendur sjálfur taki frumkvæði og taki þátt, eða eiga þeir fyrst og fremst að fylgja fyrirfram skilgreindri dagskrá.

Það er viðvarandi vandamál í viðburðum þar sem þátttakendur sjálfur leggja ekkert út, að einhverjir hætti við eða leggi sig ekki fram. Við því má búast, og því er oft í lagi að taka inn örlítið fleiri inn en þann fjölda sem stefnt er að. Gott getur verið að óska eftir formlegri staðfestingu innan ákveðins tímaramma, s.s. bókun á ferðalögum. Jafnvel þegar fáir umsækjur sækja um, og allir komast að sem vilja, getur borgað sig að að hafa umsóknarferlið formlegt. Þegar þátttakendur eru formlega samþykktir inn í ferlið kunna getur það hjálpað þeim að taka það alvarlega.


  1. WIRED: Startup 'decelerators' would 'innovate by slowing down' ↩︎

  2. Decelera Ventures' ↩︎